Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vinstri grænir: Ríkið falli frá sölu á hlut sínum í HS
Föstudagur 29. júní 2007 kl. 16:05

Vinstri grænir: Ríkið falli frá sölu á hlut sínum í HS

Þingflokkur VG krefst þess að ríkið falli frá sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Frá þessu er greint á heimasíðu VG.

Það segir jafnframt: Ýmis sveitarfélög sem átt hafa eignaraðild að Hitaveitu Suðurnesja eða eru á þjónustusvæði hennar eru uggandi vegna sölu fyrirtækisins og aðkomu einkaaðila að rekstrinum. Þegar ríkið bauð hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til kaups skömmu fyrir nýafstaðnar kosningar til Alþingis  kom í ljós að fjárfestar mátu fyrirtækið á margfalt hærra verði en opinberir aðilar höfðu gert. Þetta endurspeglar trú fjárfesta á möguleikum til að hafa arð út úr orkugeiranum eftir að hann hefur verið markaðsvæddur. Forsenda mikillar arðsemi er að sjálfsögðu hátt raforkuverð sem kemur til með að bitna á neytendum, hinum almenna raforkukaupanda, heimilum og fyrirtækjum.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur ítrekað varað við einkavæðingu raforkugeirans og í því samhengi bent á að markaðsvæðing á starfsemi sem í eðli sínu er einokandi er neytendum í óhag. Slíka starfsemi á að reka á samfélagslegum forsendum enda um grunnþjónustu að ræða og í verkahring hins opinbera að tryggja öllum aðgengi og lágt verð á grunngæðum.

Nú hefur komið ljós að sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila er þvert á vilja margra sveitarfélaga sem eiga hlut í fyrirtækinu. Voldugir fjárfestar, þar á meðal  Glitnir og FL-Group ganga nú á milli eignaraðila í því augnamiði að eignast sem stærstan hlut í fyrirtækinu. Með aðgerðum sínum hefur ríkisvaldið valdið óvissu í rekstri Hitaveitu Suðurnesja og komið samstarfi sveitarfélaga í uppám.

Meðal annars í þessu ljósi telur VG að ríkisstjórninni beri að leita allra leiða til að endurheimta hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja þannig að tryggt verði að fyrirtækið verði áfram í samfélagslegri eigu og þessi innrás fjárfesta í orkufyrirtæki landsmanna stöðvuð.

Frá þessu er greint á vef Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024