Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinsæl mynd: 10.000 manns hafa skoðað slökkviliðsmann í eldhafi
Miðvikudagur 7. mars 2007 kl. 02:06

Vinsæl mynd: 10.000 manns hafa skoðað slökkviliðsmann í eldhafi

Ljósmynd Hilmars Braga Bárðarsonar af Sigmundi Eyþórssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, þar sem hann stekkur út um glugga á logandi húsi virðist vera að vekja gríðarlega athygli á netinu þessa dagana. Myndina birtu Víkurfréttir í myndasafni síðustu viku í tilefni af því að Brunamálaskólinn opnaði formlega skóla sinn á Suðurnesjum í síðustu viku.

Vinsælasti afþreyingarvefur landsins, www.b2.is, tengdi á myndina á mánudaginn á vefsíðu sinni og síðustu tvo sólarhringa hafa á sjöunda þúsund manns skoðað myndina, bara frá þessari vefsíðu. Á miðnætti var myndin í öðru sæti á b2.is yfir vinsælustu tengla vikunnar. Einnig hafa komið tengingar á myndina frá fleiri tenglasöfnum og lætur nærri að á tveimur sólarhringum hafi 10.000 manns skoðað myndina af Sigmundi, þar sem hann kemur stökkvandi út úr eldhafinu.

Myndin er ekki alveg ný af nálinni, en hún var tekin á æfingu slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja í Hvassahrauni árið 2001. Það var í frumbernsku stafrænnar ljósmyndunar en myndin var tekin á Canon PowerShot Pro 70 myndavél. Þær voru ekki hraðvirkari en svo að Hilmar Bragi náði að smella af þessari mynd á réttu augnabliki en næsta mynd sem náðist var þegar Sigmundur var kominn á jafnsléttu. Í dag taka hraðvirkustu ljósmyndavélar Víkurfrétta 8,5 myndir á sekúndu, og myndgæðin eru allt önnur.

Sigmundur var ekki í mikilli hættu, þó svo hann hafi hitnað eitthvað þegar yfirtendrunin varð eins og sjá má á myndinni.

VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

 

www.b2.is

 

Hér er "gamla góða" myndavélin!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024