Vinnuslys í kísilveri í Helguvík
- Vinnueftirlitið krefst skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði starfsmanna United Silicon
Slys varð í kísilveri United Silicon aðfararnótt þriðjudags þegar starfsmaður fékk í sig rafmagn. Slysið hefur verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins og samkvæmt upplýsingum þaðan eru rafmagnsslys mögulega alltaf hættuleg. Starfsmanninum var komið undir læknishendur en fór heim eftir að fylgst hafði verið með líðan hans í nokkra klukkutíma. Slysið virðist ekki hafa haft alvarlegar afleiðingar samkvæmt þeim upplýsingum sem Vinnueftirlitið hefur en ekki er hægt að fullyrða neitt afleiðingar til lengri tíma á þessari stundu.
Vinnueftirlitið hefur farið í þrjár eftirlitsferðir í verksmiðjuna síðan starfsemin hófst og mun fylgjast reglubundið með skipulagningu og framkvæmd vinnuverndarstarfs og vinnuumhverfis fyrirtækisins á næstunni. Vinnueftirlitið fór síðast í heimsókn í verksmiðjuna í gær, miðvikudag, og áttu fulltrúar þess fund með stjórnendum United Silicon um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs og alla þá þætti í vinnuumhverfinu sem tryggja þarf að uppfylli kröfur á sviði vinnuverndar. Fyrirtækinu voru gefin tímasett fyrirmæli um að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði og áhættumat fyrir öll störf, koma á virku starfi öryggisnefndar og bæta ákveðin atriði varðandi starfsmannaaðstöðu. Vinnueftirlitið mun fara í reglubundnar heimsóknir í verksmiðjuna á næstunni og gefa frekari fyrirmæli sé tilefni til.