Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinnuslys, hjartasjúkdómar og veikindi á annasamri sjúkraflutningahelgi
Mánudagur 19. júlí 2010 kl. 15:20

Vinnuslys, hjartasjúkdómar og veikindi á annasamri sjúkraflutningahelgi

Þó svo það sé hásumar og búast megi við rólegheitum, þá verða sjúkraflutningamenn ávallt að gera ráð fyrir hinu versta. Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja áttu von á rólegri helgi, en eitthvað allt annað átti eftir að koma á daginn

Helgin byrjaði rólega en þegar upp var staðið í morgun voru útköll helgarinnar orðin tuttugu og fjögur. Af þessum 24 útköllum voru sjö svokölluðum "F1" forgangi og fimm með "F2" en þetta eru hæstu forgangsstig hjá sjúkraflutningamönnum og notuð þegar mikið liggur við og jafnvel líf í hættu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sunnudagurinn var stærstur hjá sjúkraflutningamönnum en þá var farið í 13 útköll á dagvaktinni og voru þau af öllum toga, vinnuslys, hjartasjúkdómar og önnur veikindi og voru í fjórum tilfellum tveir sjúkrabílar út í einu.

Það er því óhætt að segja að álagið hafi verið töluvert og bætir það ekki að fæðingardeild HSS er lokuð til 26. júlí og fara því allir fæðingarflutningar inn á kvennadeild Landsspítalans við Hringbraut.

Eins og fólk hefur eflaust tekið eftir í fréttum stefnir allt í að slökkviliðs- og sjúkraflutningsmenn fari í verkfall og byrjar það á föstudaginn 23. júlí með dagsverkfalli og verður þá ekki sinnt "F4" sjúkraflutningum sem eru lægsti forgangur en getur haft óþægindi fyrir stofnanir sem þurfa að senda sína skjólstæðinga með sjúkrabíl.

Eins verður ekki sinnt "F3" útköllum hjá slökkviliði. Á vefsíðu Brunavarna Suðurnesja segir að það sé von stjórnenda BS að menn nái saman og ekki þurfi að koma til þessa verkfalls svo að öryggi fólks muni ekki verða skert og að allir samningsaðilar geti unað sáttir við sitt.