Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vinnuskólastúlkur dekruðu við heimilisfólk Garðvangs
Tvær stúlknanna við störf á Garðvangi.
Föstudagur 14. september 2012 kl. 15:07

Vinnuskólastúlkur dekruðu við heimilisfólk Garðvangs

Vinnuskóla sumarsins hjá Sveitarfélaginu Garði er nýlega lokið og voru starfsmenn vinnuskólans töluvert færri en áður, en mun lengur við vinnu en síðustu tvö sumur.

Vinna hófst 22. maí í vor og lauk 17. ágúst sl., en síðustu tvö ár hafa allir nema flokksstjórar verið hættir störfum upp úr 20. júlí.

Undanfarin ár hefur vinnuskólinn verið í samstarfi við ýmis félagasamtök og starfsfólk vinnuskólans fengið að vinna sína vinnu hjá samtökunum en fengið greitt frá vinnuskólanum.

Hugsunin á bak við þetta samstarf er að koma krökkum í krefjandi störf þar sem þau vinna meira með fullorðnum einstaklingum í lærdómsríkri vinnu.

Helstu félagasamtök sem hafa notið starfskrafta vinnuskólans í Garðinum eru skátabúðir við Úlfljótsvatn, GS í leirunni, Máni á Mánagrund og knattspyrnufélagið Víðir.

Í sumar var gerð tilraun með að bjóða ungmennum að vinna sína vinnu inni á Garðvangi við að aðstoða starfsfólkið þar.

Fjórar stúlkur buðu sig fram og vildu prófa, og kláruðu tvær þeirra sína sumarvinnu alveg þar, eða átta vikur.

Stúlkurnar voru mjög ánægðar að fá þetta tækifæri og starfsfólk Garðsvangs lýsti einnig mikilli ánægju með störf stúlknanna en þeirra helstu verkefni voru að dekra við vistmenn Garðvangs.

Starfsfólk Garðvangs fannst ánægjulegt að heyra gamla fólkið spyrja um stúlkurnar, og sakna dekursins, þegar tímabilinu lauk og þær hættu störfum.

Líklegt er að framhald verði á þessu samstarfi þar sem starfið er mjög þroskandi og gefandi fyrir ungmennin og almenn ánægja allra aðila með hvernig til tókst.

Yfirmaður vinnuskólans vill koma á framfæri þökkum til starfsfólks Garðvangs fyrir að taka vel í hugmyndina og gefa ungmennunum þetta tækifæri, segir á vefsíðu Sveitarfélagsins Garðs.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024