Vinnumarkaðsráð styrkti Fjölsmiðjuna um 2 milljónir króna.
Vinnumarkaðsráð Suðurnesja styrkti Fjölsmiðjuna um 2 milljónir króna og afhenti Guðjónína Sæmundsdóttir, formaður ráðsins Ólafi Þór Ólafssyni, forstöðumanni Fjölsmiðjunnar, styrkinn.
„Það hefur vantað úrræði eins og Fjölsmiðjuna á Suðurnesin og því einkar ánægjulegt að þetta skuli loksins vera að komast á koppinn. Vinnumarkaðsráðið vill leggja sitt á vogarskálina, en það kostar að sjálfsögðu mikið fjármagn að koma þessu á laggirnar,“ sagði Guðjónína.
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er samstarfsverkefni nokkura aðila, en hún er vinnusetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem stendur á krossgötum. Þar gefst fólki tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað og áframhaldandi nám. Fyrirmynd að starfseminni er sótt til Fjölsmiðjanna í Kópavogi og á Akureyri. Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum mun fara af stað fljótlega á nýju ári, en Ólafur Þór Ólafsson er nýráðinn forstöðumaður hennar.
Vinnumarkaðsráð Suðurnesja er ráð undir Vinnumálastofnun sem hefur starfað í 3 ár og veitt styrki árlega í verkefni. Ráðið hefur undanfarin ár m.a. veitt styrki í námskeiðahald fyrir frumkvöðla , fyrir einstaklinga sem eru að stofna fyrirtæki og þá sem reka fyrirtæki. Einnig hefur ráðið styrkt rannsókn á meðal atvinnulausra einstaklinga sem eru yfir fimmtugt og verkefnið Lífskost.
Mynd: Guðjónína Sæmundsdóttir afhendir Ólafi Þór Ólafssyni styrkinn.
VF-Mynd/siggijóns