Vinnueftirlitið hefur gefið 17 fyrirmæli um úrbætur í kísilveri
Vinnueftirlitið hefur farið í fjórar heimsóknir í kísilver United Silicon síðan 21. nóvember. Þar af þrjár eftirlitsheimsóknir. Stundin birti í vikunni myndband þar sem mikill reykur sést inni í verksmiðjunni. Í svari frá Vinnueftirlitinu við fyrirspurn Víkurfrétta um það hvort þær aðstæður sem sáust í myndbandinu væru í samræmi við reglur segir að erfitt sé fyrir fulltrúa þess að tjá sig um aðstæður og áhrif þeirra út frá myndbandsbút. „Almennt séð er ekki ætlast til að starfsmenn vinni í mengun. Ef það reynist óhjákvæmilegt þarf að nota viðeigandi persónuhlífar til að verja starfsmenn gegn áhrifum mengunar,“ segir í svari Vinnueftirlitsins.
Vinnueftirlitið hefur í kjölfar eftirlitsheimsókna gefið alls 17 fyrirmæli um úrbætur er varða skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs hjá United Silicon og atriði er varða öryggi og heilbrigði starfsmanna. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirlitinu hafa verið gefnir tiltölulega stuttir frestir til að ljúka úrbótum en þeir eru ekki útrunnir. Fylgi fyrirtæki ekki fyrirmælum Vinnueftirlitsins getur stofnunin gripið þvingunaraðgerða. Eftirlitsferð í verksmiðju United Silicon í Helguvík er fyrirhuguð innan skamms og verður þá meðal annars lögð áhersla á aðbúnað starfsmanna og öryggi, þar með talið á það sem fram kemur í myndbandi á vef Stundarinnar.