Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinnueftirlit Varnarliðsins hlýtur æðstu viðurkenningu flotamálaráðherra Bandaríkjanna
Fimmtudagur 10. apríl 2003 kl. 09:37

Vinnueftirlit Varnarliðsins hlýtur æðstu viðurkenningu flotamálaráðherra Bandaríkjanna

Flotastöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hlaut nýlega æðstu viðurkenningu bandaríska flotamálaráðuneytisins fyrir frábæran árangur í vinnuvernd. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi viðurkenning er veitt í samkeppni allra bækistöðva Bandaríkjaflota, en vinnueftirlit varnarliðsins hefur verið í fyrsta sæti í árlegri samkeppni meðal bækistöðva flotans utan Bandaríkjanna síðastliðin þrjú ár.Afhenti flotamálaráðherra Bandaríkjanna yfirmanni flotastöðvar varnarliðsins, Dean M. Kiyohara, og Magnúsi Guðmundssyni forstöðumanni vinnueftirlitsins viðurkenninguna við athöfn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, Pentagon.

Flotastöðin á Keflavíkurflugvelli er stærsta deild varnarliðsins og annast alla þjónustustarfsemi á vegum þess, þ. á m. rekstur flugvallarins, húsnæðis, veitu- og birgðastofnana svo eitthvað sé nefnt. Auk 1.800 hermanna starfa um 900 Íslendingar hjá Varnarliðinu, flestir hjá flotastöðinni, og er vinnueftirlitið rekið á vegum hennar. Auk þess starfa tæplega 800 manns á vegum íslenskra verktakafyrirtækja á varnarsvæðinu og hafa þeir líkt og liðsmenn og starfsmenn varnarliðsins ávallt lagt mikla áherslu á vinnuvernd í störfum sínum.

Íslensk vinnuverndarlög gilda á Keflavíkurflugvelli. Sú vinnuregla er þó viðhöfð að ávallt er farið eftir þeim lögum og reglugerðum, íslenskum eða bandarískum, sem ná lengra hverju sinni. Forstöðumaður og allir fimm eftirlitsmenn vinnueftirlitsins eru íslenskir og hafa þeir samanlagt yfir 120 ára starfsreynslu á þessu sviði. Auk þeirra eru á annað hundrað öryggisfulltrúar starfandi á hinum fjölmörgu vinnustöðum á varnarsvæðinu. Reglubundið eftirlit er með öryggi og vinnuvernd í öllum mannvirkjum og á vinnustöðum auk öryggis við íþrótta- og tómstundaiðkun svo og á sviði umferðaröryggis. Fræðsla er stór þáttur starfseminnar og fá allir liðsmenn og starfsmenn varnarliðsins og verktaka þess reglubundna þjálfun, enda vinnuslys fátíð á Keflavíkurflugvelli. Náið samstarf er við Vinnueftirlit ríkisins og önnur íslensk yfirvöld og hafa Magnús og starfsfólk hans áður hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín.

Myndatexti:

Talið frá vinstri: Magnús Guðmundsson, forstöðumaður vinnueftirlits varnarliðsins, Dean M. Kiyohara kafteinn, yfirmaður flotastöðvar varnarliðsins, Gordon R. England flotamálaráðherra Bandaríkjanna, Vern Clark yfirflotaforingi og William L. Nyland hershöfðingi, aðstoðaryfirmaður landgönguliðs Bandaríkjaflota.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024