Vinningstillagan skapar forsendur nýrrar atvinnusóknar við Keflavíkurflugvöll
Alþjóðlega hönnunar- og skipulagsstofan KCAP, með höfuðstöðvar í Sviss, varð hlutskörpust í samkeppni sem Kadeco hélt um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll til ársins 2050. Arkitekt hjá fyrirtækinu líkir þróunaráætluninni við íslenska geimferðaáætlun. Vinningstillagan gerir ráð fyrir sérstakri forgangsbraut fyrir hraðar og vistvænar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins og muni laða að fjölþætta starfsemi og fyrirtæki.
Mikill áhugi var á verkefninu, sem talið er hafa mikla sérstöðu vegna þeirra möguleika sem felast á svæðinu. Alls sóttust 25 fyrirtæki víða að úr heiminum eftir að taka þátt í forvali. Þrjú þeirra voru valin til að skila mótuðum tillögum byggðum á efnahagslegri greiningu: KCAP, ARUP og Jacobs. Ekki var um hefðbundna hönnunarsamkeppni að ræða heldur var einnig óskað eftir atvinnuþróunar- og fjárfestingaráætlun sem héldist í hendur við alla hönnun. „Við erum mjög ánægð með þennan mikla áhuga. Mörg viðurkennd fyrirtæki, sem sinna stórverkefnum við þróun og skipulag svæða og borga, óskuðu eftir upplýsingum og þátttöku í forvalinu. Þau fyrirtæki sem voru valin skiluðu öll mjög áhugaverðum hugmyndum sem við getum nýtt í framhaldinu. Vinningstillagan er mjög spennandi en á sama tíma raunhæf,” segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.
Vistvænar og hraðar samgöngur. Alþjóðlega teymið sem stendur að vinningstillögunni er þverfaglegt og með mikla reynslu. Meðal þess áhugaverða í tillögunni er hugmynd um að forgangsbraut verði lögð fyrir vistvæna fólksflutninga milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins, þar sem hún tengdist Borgarlínu. Þessi farartæki sem tengd yrðu forgangsbrautinni ættu að komast hraðar á milli en einkabílar og nýtast vel farþegum og starfsfólki á flugvallarsvæðinu. „Með þessu verða almenningssamgöngur á svæðinu styrktar og unnið að markmiðum Íslands um kolefnishlutleysi og sjálfbærni,“ segir Pálmi Freyr.
Yfirveguð dirfska og raunsæi. Anouk Kuitenbrouwer, arkitekt hjá KCAP, segir að hennar félagar hlakki mjög til samstarfsins við Kadeco. Í þróunaráætluninni felist mikil og spennandi tækifæri: „Ég leyfi mér að líkja þróunaráætluninni við íslenska geimferðaáætlun. Svo þýðingarmikið verkefni krefst yfirvegaðrar dirfsku. Það hvernig til tekst ræðst svo auðvitað af viðbrögðum fyrirtækja og almennings. Í þetta sóttum við innblástur í hönnunarvinnunni en nálgumst hana af varfærni og raunsæi. Mikilvæga hluta svæðisins má þróa í áföngum og um leið varðveita með hagkvæmri landmótun þau gæði sem felast í opnum víðernum umhverfis það.“
Styrkleikar svæðisins og alþjóðlegar tengingar. Áhersla er lögð á það í starfi Kadeco að svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll þróist í takti við samfélagið og að við uppbyggingu verði sérstaklega horft til styrkleika Suðurnesja. Markmiðið hefur verið að móta heildstæða áætlun sem leggi grunn að þróunarkjarna fyrir atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum og dragi fram markaðslega sérstöðu svæðisins. „Við höfum nú fengið heildstæða mynd af uppbyggingu svæðisins umhverfis Keflavíkurflugvöll, með tengingum við stórskipahöfn og höfuðborgarsvæðið með greiðri samgönguleið og hvar hentugast er að koma fyrir margskonar starfsemi,” segir Pálmi Freyr Randversson. „Keflavíkurflugvöllur er vel tengdur alþjóðaflugvöllur sem býður upp á ótal efnhagslega möguleika. Með heildstæðri sýn um þróun svæðisins er okkur ekkert til fyrirstöðu að nýta enn frekar tækifærin og laða að innlenda og alþjóðlega aðila sem vilja búa við þá kosti sem eru til staðar á svæðinu. Við hlökkum til að vinna með teyminu frá KCAP, Isavia og sveitarfélögunum á Suðurnesjum að þessu mikilvæga verkefni.“
Opinn fundur verður haldinn í Hljómahöll í Reykjanesbæ um kynningu á vinningstillögunni í lok janúar 2022.