Vinningshafar í kaffileik Kaffitárs
Laugardaginn 30. september s.l. var haldin afmælishátíð í kaffibrennslu Kaffitárs ehf, í tilefni 10 ára afmælis fyrirtækisins. Kaffibrennslan og húsakynni Kaffitárs voru færð í afmælisfötin með skreytingum í stíl við nýtt samræmt útlit sem Kaffitár kynnir um þessar mundir.Gestum var boðið uppá kaffi og konfekt auk þess sem Sigríður brennslumeistari brenndi kaffibaunir af sinni alkunnu snilld. Gestirnir fengu með sér heim, sýnishorn af þessu nýbrennda og ilmandi kaffi. Erla Kristinsdóttir, Íslandsmeistari kaffibarþjóna árið 2000, lagaði cappuccino fyrir gesti en tæplega 700 kaffibollar voru frambornir á tímabilinu frá 13-16 þennan dag. Margir tóku þátt í skemmtilegum kaffibaunaleik sem ætlaður var bæði börnum og fullorðnum. Þátttakendur áttu annars vegar að giska á fjölda kaffibauna í 70 kg. sekk af Gvatemala-kaffi, og hins vegar að reyna að áætla fjölda kaffibolla sem hægt væri að laga úr þessum 70 kg. af baunum. Rétt svar er 401.100 baunir, en það var Jónas Jóhannesson, Borgarveg 1, Njarðvík sem var næst þeirri tölu með 420.000 baunirÞað reyndist erfiðara að giska á fjölda kaffibolla, en næst réttri tölu komst Stefanía Pálsdóttir, Hlíðarbyggð 11, Garðabæ. Hún giskaði á 7.999 kaffibolla en rétt svar var 7.636 bollar. Vinnigshafar í afmælisleiknum fengu veglegar gjafakörfur frá Kaffitári í verðlaun.