Vinna þarf að framtíðarlausn öldrunarmála á Suðurnesjum
Nokkuð hart var tekist á á fundi sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hélt í gær um heilbrigðismál. Tekist var á um hvort nýta ætti alla D-álmu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja undir hjúkrunarrými fyrir aldraða eða hvort nýta ætti álmuna undir almenna sjúkrahúsþjónustu stofnunarinnar. Flestir fundarmenn voru sammála um að nýta þyrfti D-álmuna fyrir aldraða sjúka, auk almennrar sjúkraþjónustu HSS á meðan fundin yrði lausn á málinu.
Jón Gunnarsson alþingismaður sagði á fundinum að hann teldi að nýta ætti D-álmuna undir sjúka aldraða eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Jóhann Geirdal bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ tók í sama streng og sagði að frá upphafi hefði D-álman verið byggð til að hýsa hjúkrunardeild og sagði það svik við íbúa Reykjanesbæjar ef hvikað yrði frá þeim hugmyndum.
Hjálmar Árnason alþingismaður kallaði eftir heildarstefnumörkun á þjónustu fyrir aldraða á Suðurnesjum. Hann harmaði hvernig umræðan um málefni HSS hefði þróast og sagði umræðu um stofnunina einkennast af kjaftasögum og æsingi. Sagði hann vandann vera margþættan og að nauðsynlegt væri að gefa stjórnendum HSS tækifæri til að vinna að stefnumörkun stofnunarinnar.
Konráð Lúðvíksson yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sagði vont að vinna í því umhverfi sem skapast hefði upp á síðkastið í málefnum stofnunarinnar. Sagði hann það bitna verulega á starfsemi og starfsmönnum HSS þegar svo virtist sem samfélagið legðist gegn stofnuninni af fullum þunga. Konráð sagði nauðsynlegt að finna þyrfti lausn á málefnum D-álmunnar og rakti í framhaldi sögu álmunnar.
Misvísandi tölur um fjölda á biðlistum
Á fundinum kom fram óánægja með hve tölur eru mikið á reiki um hve þörfin á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða er mikil, allt frá því að vera tveir og upp í 70. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði mjög slæmt að tölurnar um biðlista væru jafn misvísandi og raun bæri vitni og taldi hann nauðsynlegt að komast til botns í málinu. Sagði hann meðal annars myndu láta skoða það í heilbrigðisráðuneytinu hvort hægt væri að finna nýjar aðferðir við vistunarmat.
Sigurður Garðarsson formaður Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum kom fram með upplýsingar sem sýndu að á Suðurnesjum væru hlutfallslega mun færri vistunarrými fyrir aldraða en á landinu að meðaltali og að fleiri væru á biðlistum á Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Samkvæmt tölum Sigurðar kom fram að á landinu öllu væru 2,9% aldraðra á biðlistum eftir að komast á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Á Suðurnesjum eru 5,9% aldraðra á biðlistum en alls eru 129 rými fyrir aldraða á Suðurnesjum.
Í máli Finnboga Björnssonar framkvæmdastjóra Dvalarheimila á Suðurnesjum kom fram að langir biðlistar væru eftir hjúkrunarrými á Garðvangi í Garði og á vistheimilið Hlévang.
Sigurður Árnason yfirlæknir á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sagði að einungis 3 til 5 skjólstæðingar heimahjúkrunar þyrftu að komast á hjúkrunarheimili. Sigurður hvatti fundarmenn til að láta sig vita ef þeir vissu um aldraða einstaklinga sem þyrftu að komast á hjúkrunarheimili. Taldi Sigurður starfsfólk heimahjúkrunar hafa góða vitneskju um þarfir skjólstæðinga sinna og samkvæmt lauslegri athugun hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að 3 til 5 aldraðir einstaklingar þyrftu á vist að halda.
Seljunum verður ekki lokað
Heilsugæsluseljum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Sandgerði, Vogum og Garði verður ekki lokað, en töluverð umræða hefur verið um rekstur þeirra upp á síðkastið. Kom þetta fram í máli Sigríðar Snæbjörnsdóttur framkvæmdastjóra HSS og Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra. Sagði Sigríður að því miður hefði ekki tekist að ráða lækni sem myndi sinna seljunum og því hefði hjúkrunarfræðingur verið þar með fasta tíma upp á síðkastið. Verið er að vinna að því að ráða lækni sem mun sinna seljunum að sögn Sigríðar.
Í framtíðarstefnu HSS er gert ráð fyrir að nýrri skurðstofu verði komið fyrir á 3. hæð D-álmunnar og að gamla skurðstofuhúsnæðið verði notuð fyrir heilabilað fólk. Sigríður Snæbjörnsdóttir sagði það mjög mikilvægt að koma slíkri aðstöðu upp á HSS þar sem aukin eftirspurn væri eftir aðstöðu fyrir heilabilaða.
Fundarmenn voru flestir sammála um að finna þyrfti framtíðarlausn varðandi öldrunarmál á Suðurnesjum. Jón Kristjánsson sagði að huga þyrfti að uppbyggingu öldrunarrýma á Suðurnesjum og sagðist hann vera sáttur við framtíðarstefnu HSS.
Í máli nokkurra fundarmanna kom fram sú skoðun að á meðan væri verið að vinna að framtíðarlausn öldrunarmála á Suðurnesjum, væri nauðsynlegt að D-álman yrði notuð undir aldraða sjúka og aðra sjúkrahússtarfsemi HSS. Með því væri verið að fara bil beggja, þ.e. að þjóna sjúkum öldruðum og jafnframt sinna almennri sjúkrahúsþjónustu í álmunni. Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar munu sækja um framkvæmdaleyfi til byggingar öldrunarheimilis í Reykjanesbæ á næstunni.
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.