Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vindur í 35 metra á sekúndu á slysstað
Föstudagur 5. nóvember 2004 kl. 18:28

Vindur í 35 metra á sekúndu á slysstað

Skömmu fyrir kl. fjögur í dag barst lögreglu tilkynning um mjög harðan árekstur vörubifreiðar og fólksbifreiðar á Reykjanesbraut um 1500 metrum vestan við gatnamótin við Vogaveg. Þar hafði ökumaður stórrar vörubifreiðar með tengivagn misst stjórn á bifreiðinni sökum hvassviðris með þeim afleiðingum að vörubifreiðin skall á hlið fólksbifreiðar sem kom úr gagnstæðri átt. Hjólbarðar vörubifreiðarinnar fóru yfir aftari hluta fólksbifreiðarinnar. Ökumenn voru einir í bifreiðunum og hlutu þeir einhverja áverka. Þeir voru fluttir með sjúkrabifreiðum til sjúkrahúss í Reykjavík þar sem hugað var að þeim. Fólksbifreiðin var ónýt eftir óhappið. Þá var vörubifreiðin einnig töluvert skemmd.

Samkvæmt veðurrita Vegagerðarinnar fóru vindhviður á þessum tíma upp í 35 metra á sekúndu á Strandarheiði sem er skammt austan við þann stað þar sem slysið varð.

Varla var stætt á vettvangi slyssins og þurftu lögreglu- og sjúkraflutningsmenn að hafa sig alla við að fjúka ekki um koll, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum Hilmars Braga Bárðarsonar frá vettvangi slyssins nú síðdegis. Á efri myndinni berjast menn á móti rokinu með slasaðan flutningabílstjóra á sjúkrabörum. Á neðri myndinni tekur Kári hraustlega í lögreglumanninn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024