Vínbúðir á Suðurnesjum neituðu að selja ungmennum bjór
17 til 18 ára ungmenni reyndu að versla sér bjór í vínbúðunum á Suðurnesjum, en um er að ræða könnun sem framkvæmd var í síðustu viku af Samsuð, samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum.
Ungmennum var ekið í vínbúðirnar þar sem þau freistuðu þess að versla bjór. Í öllum tilvikum voru ungmennin beðin um skilríki. Þau ungmenni sem tóku þátt í könnuninni höfðu fengið leyfi foreldra sinna til að taka þátt.
Samsuð stóð einnig á bakvið það þegar ungmenni reyndu að versla sér tóbak í verslunum á Suðurnesjum. Í þeirri könnun kom í ljós að 48% sölustaða á Suðurnesjum seldu ungmennum tóbak.
Samtökin munu halda áfram að gera óformlegar kannanir til að fylgjast með því hvort starfsfólk sölustaða áfengis og tóbaks á Suðurnesjunum fari að lögum um sölu áfengis og tóbaks.