Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vínbúðin í Reykjanesbæ valin sú besta á landinu
Mánudagur 1. apríl 2013 kl. 14:47

Vínbúðin í Reykjanesbæ valin sú besta á landinu

Vínbúðin í Reykjanesbæ var valin besta vínbúð ársins árið 2012. Þetta var tilkynnt á ársfundi fyrirtækisins fyrr á þessu ári. Um mikinn heiður er að ræða fyrir Vínbúðina í Reykjanesbæ enda eru Vínbúðir hér á landi alls 48 talsins. Litið er til nánast allra þátta við val á Vínbúð ársins en verðlaunin eru nokkurt kappsmál innan fyrirtækisins. Litið er til reksturs, ánægju viðskiptavina o.fl. þátta.

„Við erum gríðarlega stolt af því að reka bestu Vínbúðina af þeim 48 sem eru hér á landi,“ segir Rannveig Ævarsdóttir, verslunarstjóri Vínbúðarinnar í Reykjanesbæ. „Það er mikið kappsmál hjá þeim sem reka Vínbúðirnar að fá þennan heiður. Það er mikið lagt upp úr þessu innan fyrirtækisins og því erum við gríðarlega ánægð með þessi verðlaun. Við stefnum nú að því að verja titilinn að ári.“

Þessi verðlaun hafa verið veitt undanfarin ár innan fyrirtækisins og er þetta í fyrsta sinn sem Vínbúðin í Reykjanesbæ hlýtur þennan heiður. Gerðar eru ítrekaðar kannanir á þjónustu í hverri einustu Vínbúð hér á landi. Nokkrum sinnum í mánuði koma einnig matsmenn í Vínbúðir sem starfsmenn vita ekki af. Það er því mikið eftirlit með störfum hverrar Vínbúðar allt árið um kring.

„Capacent Gallup gerir könnun þrisvar á ári, bæði hvað varðar ánægju viðskiptavina og einnig með þjónustu starfsfólks. Innra eftirlit hjá Vínbúðunum hefur einnig sitt að segja og auðvitað sjálfur reksturinn. Þetta eru þeir þættir sem helst er litið til,“ segir Rannveig.

„Hingað koma til okkar einstaklingar í hverjum einasta mánuði til að athuga hvort það sé ekki örugglega spurt um skilríki. Þetta eru einstaklingar á aldrinum 20-25 ára og við vitum aldrei hvenær þeir koma til okkar. Við þurfum því alltaf að vera á tánum,“ segir Ari Lár Valsson, aðstoðarverslunarstjóri.

Hægt að panta flest vín í gegnum Vínbúðina í Reykjanesbæ

Alls eru 700 vörutegundir til sölu í Vínbúðinni í Reykjanesbæ. Stærstu Vínbúðirnar hér á landi eru með 2000 vörutegundir. Hins vegar er hægt að panta þær vörur sem ekki eru í hillum Vínbúðarinnar í Reykjanesbæ á vef Vínbúðarinnar og fá afhent í Reykjanesbæ.

„Við sérpöntum einnig fyrir fólk, t.d. sérstök rauðvín sem fólk hefur prófað erlendis. Það kemur reglulega fyrir og hefur færst í aukana,“ segir Rannveig.

Um 10 manns starfa í Vínbúðinni í Reykjanesbæ. Fyrir að reka bestu Vínbúð landsins á síðasta ári voru starfsmenn fyrirtækisins verðlaunaðir fyrir góð störf. Fyrirtækið fagnaði 90 ára starfsafmæli sínu á síðasta ári og því var enn meira lagt í samkeppnina um bestu Vínbúðina en áður. Það er því mikil viðurkenning fyrir Vínbúðina í Reykjanesbæ að hljóta þessi verðlaun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024