Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinabæirnir munu vinna að þremur umbótaverkefnum
Undirskrift vinabæjarsamnings. F.v. Kirsi Rotu Kerava, Paul Åkelund Trollhättan, Harald Furre Kristiansand og Friðjón Einarsson Reykjanesbæ. Hjá þeim stendur Levio Benedette upplýsingafulltrúi Trollhättan.
Miðvikudagur 16. mars 2016 kl. 16:13

Vinabæirnir munu vinna að þremur umbótaverkefnum

Fulltrúar vinabæjanna Reykjanesbæjar, Kerava, Kristiansand og Trollhättan skrifuðu undir vinabæjarsamning á nýafstöðnu vinabæjarmóti í Trollhättan og halda þar sem áfram áratugalöngu vinabæjarsamstarfi. Þá hófst vinna við þrjú umbótarverkefni sem vinabæirnir munu vinna sameiginlega að á næstu tveimur árum.

Þrír sviðsstjórar og þrír bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar þáðu boð bæjaryfirvalda í Trollhättan þar sem vinabæjarmótið fór fram að þessu sinni. Trollhättan fagnar 100 ára afmæli á árinu og fékk bærinn yfirlitsmynd af Reykjanesbæ eftir ljósmyndarann OZZO að gjöf.

Í Trollhättan hófst vinna við þrjú umbótarverkefni sem fulltrúar Reykjanesbæjar taka þátt í ásamt vinabæjunum. Fyrst er að nefna umbætur og þróun rafrænnar stjórnsýslu, þá móttöku erlendra nýbúa og loks hvernig draga megi úr brottfalli nemenda úr framhaldsskólum. Erindi héldu Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri Velferðarsviðs og Helgi Arnarson sviðsstjóri Fræðslusviðs, enda umrædd verkefni innan þeirra sviða. Friðjón Einarsson formaður bæjaráðs kynnti Reykjanesbæ fyrir gestgjöfum og gestum og bæjarfulltrúar ræddu ýmis verkefni stjórnsýslunnar við kollega sína í vinabæjunum. Auk Friðjóns fóru Kristinn Þór Jakobsson og Árni Sigfússon.

Norrænt vinabæjarsamstarf á sér langa sögu og hefur haft það að markmiði að  mynda góð tengsl m.a. í gegnum menningarviðburði og íþróttamót ásamt því að vinna saman að margvíslegum málefnum. Hjörring í Danmörku sagði sig úr áratugalöngu vinabæjarsamstarfi í ársbyrjun vegna breyttra áherslna í erlendum samskiptum.



Málefni hælisleitenda. Hera Ósk Einarssdóttir sviðsstjóri Velferðarsviðs lengst til hægri. í hópi kollega á nýafstöðnu vinabæjarmóti í Trollhättan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024