Vímuefnaneysla unglinga er í algeru lágmarki í Reykjanesbæ
Einungis þrjú prósent nemenda í 10. bekk Reykjanesbæ hafa orðið ölvaðir síðastliðna 30 daga, helmingi færri en gengur og gerist á landsvísu.
Sama hlutfall nemenda í Reykjanesbæ í 10. bekk eða þrjú prósent segjast hafa notað marijúana einu sinni eða oftar um æfina, en til samanburðar hafa sex prósent nemenda á sama aldri á höfuðborgarsvæðinu notað marijúana. Þessar upplýsingar eru meðal þess sem kemur fram í rannsókn sem gerð var í ár fyrir Reykjanesbæ af fyrirtækinu Rannsókn og greining.
Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri skýrir litla vímuefnaneyslu nemenda í 10. bekk með góðu forvarnarstarfi, kröftugu starfi kennara innan skólanna og góðu samstarfi heimila og skóla. „Kennararnir okkar eru að skila góðu starfi á öllum sviðum, líka í forvörnum. Við viljum að unglingarnir okkar séu vel undirbúnir undir framhaldsskólann þegar þeir útskrifast frá okkur. Heilbrigt viðhorf til vímuefna er hluti af því.“