Villiköttur beit barn
Sex ára stúlka var bitin af villiketti síðasta föstudag í Grindavík. Litla stúlkan hlut talsverða áverka. Lögreglan brást snarlega við og tók köttinn úr umferð enda hættulegur. Jóna Rut Jónsdóttir, móðir stúlkunnar, þakkar lögreglunni fyrir hversu vel hún brást við.
Að sögn Jónu Rutar var dóttir hennar í heimsókn hjá ömmu sinni og afa þegar hún sá kisu sem hún gekk að og ætlaði að klappa. En kötturinn beit hana strax og læsti kjaftinum um úlnliðinn á henni.
,,Það stórsá á stelpunni. Við höfðum strax samband við sjúkrahúsið í Keflavík og þá var okkur sagt að búa um sárið og sótthreinsa og fylgjast vel með henni út frá sýkingarhættu. Við þurftum ekki að hafa áhyggjur vegna stífkrampasprautu þar sem börn fá hana í 5 ára sprautu og hún dugar í 10 ár,“ segir Jóna Rut í samtali við tíðindamann bæjarmálasíðunnar grindavík.is.
„Næst ákváðum við að hringja í lögregluna þar sem kötturinn lét bara fara vel um sig í götunni en var greinilega sársvangur og leitaði leiða til að fara inn í hús í götunni. Ég vildi auðvitað ekki að annað barn yrði fyrir þessari óskemmtilegu reynslu. Einn lögregluþjónn kom fljótlega og kannaði málið og leit á sárin á barninu. Á meðan hafði annar samband við hann og sagðist hafa haft samband við heilbrigðiseftirlitið sem lagði til að kötturinn yrði fjarlægður. Nokkru síðar komu þrír lögreglubílar og náðu laganna verðir að króa köttinn af og fjarlægða hann,“ segir Jóna Rut.
Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.