Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 24. apríl 2001 kl. 22:00

Villandi upplýsingar um sölugengi Thermo Plus

Fjármálaeftirlitið hefur hið gjaldþrota fyrirtæki Thermo Plus í Keflavík nú til skoðunar. Ýmislegt þykir benda til að ekki hafi verið farið að settum reglum um sölu hlutafjár í fyrirtækinu og misvísandi upplýsingar eru um á hvaða gengi hlutir í félaginu hafi verið seldir. Þá var undir lok síðasta árs umtalsverðum skuldum breytt í hlutafé.
Samkvæmt upplýsingum hluthafa, sem DV hefur rætt við og ákvað að leggja fé í hlutafjárkaup, voru upplýsingar um stöðu og gengi félagsins á allt annan veg en síðar kom í ljós. Fjöldi einstaklinga og fjölskyldna situr eftir með sárt ennið og hafa í sumum tilfellum tapað mörgum milljónum króna.

Fullyrt var við DV fyrir skömmu, úr innsta hring í Thermo Plus, að um 70 milljónir að nafnverði hefðu verið seldar á genginu 1,1 í mars, apríl og maí á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá hluthöfum sem rætt var við í gær og í fyrradag voru þeim hins vegar boðin bréf í mars og apríl á genginu 6 til 7 með fullyrðingum um að um kostaboð væri að ræða. Raunverulegt virði bréfanna var þá sagt um 10 og væntingar gefnar um að gengið færi í 18 til 20 þegar líða tæki á árið 2001. DV hefur heimildir fyrir að í einhverjum tilvikum hafi ekki einu sinni verið gefnar út kvittanir fyrir sölu á margföldu gengi, en á hlutabréf viðkomandi var skráð gengið einn.

Stefán Bj. Gunnlaugsson skiptastjóri segir að ferlið varðandi uppgjör þrotabúsins sé rétt að hefjast en eftir er að lýsa eftir kröfum. Þá þurfi að loka dótturfyrirtæki erlendis, en um tveir mánuðir líði frá innköllun og birtingu í Lögbirtingablaði þar til ljóst er hvaða kröfur eru endanlega gerðar í fyrirtækið.

Skuldum breytt í hlutafé
Í samtali við DV fullyrðir einn hluthafa að þó opinberlega hafi verið talað um að seld hafi verið hlutabréf að nafnvirði 110 milljónir fyrir gjaldþrotið, eins og heimild var til að selja af hálfu hluthafa, þá hafi á síðustu mánuðum síðasta árs verið gengið frá aukingu á hlutafé um 90 milljónir til viðbótar upp í væntanlega heimild á aukningu hlutafjár. Ekki er á þessari stundu vitað á hvaða gengi það hlutafé var selt. Heimild til hækkunar hlutafjár úr 110 milljónum króna í 400 milljónir króna var hins vegar ekki samþykkt fyrr en á hluthafafundi 27. mars 2001.
Kaupendur þessa hlutafjár eru sagðir Eignarhaldsfélag Suðurnesja sem er í eigu sveitarfélaganna á svæðinu, Sparisjóðurinn í Keflavík og Lífeyrissjóður Suðurnesja. Samkvæmt heimildum DV mun þar að mestu hafa verið um að ræða breytingu á skuldum í hlutafé.

Þetta kemur fram á Visir.is í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024