Vill láta kjósa um sölu grunnskólans til Fasteignar
Haraldur Hinriksson, fulltrúi B-lista í bæjarstjórn Sandgerðis, vill að íbúar fái að kjósa um það hvort sveitarfélagið eigi að eiga eða leigja húsnæði grunnskólans af Fasteign ehf .
Haraldur leggur til að íbúar fái að kjósa um þetta samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor. Í fjárhagsáætlun 2010 er gert ráð fyrir að nýbygging Grunnskólans verði seld eignarhaldsfélaginu Fasteign.
„Þau rök sem hafa verið færð fyrir því að ódýrara sé að sveitarfélagið leigi skólahúsnæði af fasteigafélagi, í stað þess að byggja eigið húsnæði, eru fyrst og fremst þau að fasteignafélagið geti byggt ódýrar en sveitarfélagið og að fasteignarfélagið geti fengið betri vaxtakjör.
Nú þarf ekki að fjölyrða um byggingarkostnað, húsið er þegar byggt. Og hvað varðar vaxtakjör, þá sá Sandgerðisbær um að fjármagna framkvæmdina þar sem Fasteign hafði ekki aðgang að lánsfé.
Reynslan undanfarin ár af því að leigja hefur kennt okkur að það er miklu ótryggara en að eiga húsnæði skuldlaust,“ segir Haraldir í bókun sem hann lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi vegna málsins Í bókuninni lýsti hann sig mótfallinn sölu á eignarhlutanum.
Haraldur bendir á að aðeins fjórir mánuðir séu til sveitarstjórnarkosninga og því sé tilvalið að koma í framkvæmd hugmyndum um íbúalýðræði og láta kjósa um þetta mál samhliða sveitarstjórnarkosningum. „Með öðrum orðum að leyfa eigendunum sjálfum að taka endanlega ákvörðun í þessu mikilvæga máli,“ segir Haraldur.