Vill Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar
Þingmaður tjáir sig eftir ákvörðun um flutning Fiskistofu til Akureyrar.
„Hvernig væri að drífa í því að flytja Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvöll? Þar er allt til alls fyrir starfsemina, meira að segja stór flugskýli sem standa þar nær ónotuð. Á síðasta kjörtímabili var flutt um þetta þingsályktunartillaga og á henni voru þingmenn Suðurkjördæmis og þar á meðal þrír núverandi ráðherrar. Nú ættu að vera hæg heimatökin og allt í samræmi við stjórnarsáttmála ekki satt?“ Svona hljómar innlegg þingmannsins Oddnýjar Harðardóttur á Facebook svæði hennar fyrir stundu.
Í innlegginu merkir Oddný þingmennina Sigurð Inga Jóhannsson, Eygló Harðardóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Pál Jóhann Pálsson, Unni Brá Konráðsdóttur, Ásmund Friðriksson og Harald Einarsson. Með innlegginu fylgir rafrænt þingsályktunarskjal frá 2010-2011 um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Fjögur ofangreindra voru meðal flutningsmanna tillögunar á sínum tíma. Þá ályktaði þingið að fela innanríkisráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.
Tillagan var endurflutt á síðasta þingtímabili og þar eru allir ofangreindir flutningsmenn hennar. Í þeirri tillögu segir m.a.: „Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla, aðstaðan fyrir starfsemina yrði mun betri og tryggð til framtíðar og síðast en ekki síst mundi flutningurinn styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu öllu.“
Umræða um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar hefur vaknað víða eftir að ákveðið var að hálfu sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar að flytja Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar. Um 70 manns starfa hjá Fiskistofu og er vonast til að flutningur verði að fullu afstaðinn í lok árs 2015.
Ekki náðist í þingmennina Silju Dögg Gunnarsdóttur og Ragnheiði Elínu Árnadóttur við vinnslu fréttarinnar.