Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vill fá vinnandi barnslaust fólk aftur til Grindavíkur sem fyrst
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 12. desember 2023 kl. 14:46

Vill fá vinnandi barnslaust fólk aftur til Grindavíkur sem fyrst

Grindin ehf. er rótgróðið smíðafyrirtæki í Grindavík sem er bæði í smíði á innréttingum inni á verkstæði og er öflugur byggingarverktaki úti við. Starfsemin lagðist eðlilega niður hjá fyrirtækinu eins og öllum öðrum fyrirtækjum í Grindavík en starfsfólk Grindarinnar gat tekið hamrana upp fyrir tæpum tveimur vikum síðan. 

Magnús Guðmundsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hefur eins og aðrir Grindvíkingar, þurft að aðlaga sig breyttum aðstæðum að undanförnu. „Við Hulda konan mín erum í Hafnarfirði eins og sakir standa en svo eigum við líka sumarbústað í Grímsnesinu og höfum verið þar sennilega allar helgar síðan við þurftum að rýma Grindavík. Arna dóttir okkar og hennar fjölskylda hafa verið með okkur allan tímann og við erum að flytja í fjórða sinn á allra næstu dögum en þá verðum við líka komin á varanlegan stað. Ég er gallharður á því að yfirvöld eigi að hleypa fólki sem vinnur í Grindavík og er barnslaust, aftur til búsetu eins fljótt og auðið er. Það mun létta á svo miklu, bæði losnar húsnæði fyrir þær 100 fjölskyldur sem eru á vergangi, og meiri kraftur kemst í atvinnulífið.“

Grindin gat hafið starfsemi fyrir tæpur tveimur vikum en þó eru afköstin ekki orðin 100% ennþá. „Við byrjum venjulega klukkan sjö á morgnana en það er erfitt að geta lamið fyrsta hamarshögg dagsins svo snemma dags þegar menn þurfa að koma börnum í skóla í öðrum bæjarfélögum svo við höfum verið að byrja um hálf níu. Við höfum ekki nýtt okkur að vinna lengur en til fimm á daginn og þetta hefur rúllað nokkuð vel og kominn fínn gangur í þetta en þó erum við ekki að vinna á fullum afköstum ennþá. Þegar við snerum til baka eftir rýminguna, fluttum við talsvert af efni til Keflavíkur og vorum að sækja það til baka en það skemmdist eitthvað, við erum að fara yfir það. Venjulega er ég með um 25 manns í vinnu en tveir útlendingar fóru erlendis og svo eru menn að týnast til Tenerife í jólafrí. Af þessum 25 manns eru átta inni á verkstæðinu og restin af mannskapnum því úti að vinna og það hefur verið nóg að gera. Bæði höfum við verið að aðstoða við vinnunna við fráveituna en svo höfum við líka verið í stórum verkefnum fyrir Bláa lónið. Alls kyns viðhald sem hægt var að komast í núna á meðan lónið má ekki taka við gestum og eins hefur vinnuflokkur frá okkur verið að störfum fyrir Bláa lónið uppi í Kerlingafjöllum. Það er mikið framundan hjá Bláa lóninu og við með stór verkefni þar svo verkefnastaðan er góð myndi ég segja. Nú er bara að vona að hinum vinnandi hið minnsta, verði hleypt inn í bæinn en það er alger forsenda fyrir því að bærinn komist á lappir sem fyrst,“ sagði Magnús að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024