Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vill aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana
Fimmtudagur 19. febrúar 2015 kl. 09:07

Vill aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana

Flutti þingsályktunartillögu í vikunni.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, flutti í vikunni þingsályktunartillögu um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana. 

Endurskoða eigi reglur um greiðsluþátttöku ríkisins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2015. Við endurskoðunina verði gætt að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar, 
greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir og ef uppsetning á fósturvísum fer ekki fram þar sem engin frjóvgun hefur orðið, þá sé full greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna þeirrar meðferðar. Þó ekki talin með öðrum tæknifrjóvgunarmeðferðum sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nær til. Þá taki greiðsluþátttaka sjúkratrygginga til ferðakostnaðar vegna tæknifrjóvgunarmeðferða jafnvel þótt greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái ekki til þeirra meðferða og að kynfrumur (eggfrumur og sáðfrumur) frá tilteknum gjafa fari aðeins til eins pars eða einstaklings.


Ætla má að eitt af hverjum sex pörum eigi við ófrjósemi að stríða. Á árinu 2013 fór frjósemi íslenskra kvenna niður fyrir 2,1 barn á konu, en það er sú tala sem þarf að vera svo að þjóðin nái að standa í stað varðandi fólksfjölda. Afleiðingar ófrjósemi eru margvíslegar og leggjast oft þungt á sálarlíf þeirra sem þjást af henni.

Ísland eftirbátur nágrannalanda í þessum málum 

Eftir að breytingar voru gerðar á reglugerðinni um greiðsluþátttöku ríkisins (2011) nær greiðsluþátttaka sjúkratrygginga aðeins til annarrar til fjórðu meðferðar (áður var það 1.- 3.meðferð), hvort sem um er að ræða par sem á ekki barn saman fyrir eða einhleypa konu sem á ekki barn. Eftir breytinguna taka sjúkratryggingar ekki þátt í kostnaði vegna glasafrjóvgunarmeðferða hjá pörum sem fyrir eiga barn saman.
    

Frjósemisaðgerðir á Íslandi eru framkvæmdar af fyrirtækinu ART Medica. Gjaldskrá sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgana er ekki að fullu í samræmi við þann kostnað sem fylgir tæknifrjóvgunarmeðferðum, þ.e. aðgerðir eru ekki greiddar að fullu af sjúkratryggingum. Þá getur sjúklingur þurft að reiða fram tugi þúsunda úr eigin vasa. Ísland er á þessu sviði nokkur eftirbátur nágrannalanda okkar og þeirra landa sem við viljum almennt bera okkur saman við. Ferðakostnaður vegna tæknifrjóvgunarmeðferða getur einnig verið töluverður og fer það að mestu leyti eftir því hvar fólk býr á landinu. Reglurnar sem eru í gildi nú um þátttöku sjúkratrygginga í ferðakostnaði vegna meðferða eiga aðeins við þegar um niðurgreiddar meðferðir er að ræða. Þá tekur niðurgreiðslan hvorki til fyrstu né fimmtu meðferðar o.s.frv.

Fækkun meðferða vegna greiðsluþátttöku

Þess má geta að frjósemismeðferðum hefur fækkað um 10% síðustu misseri sem má rekja til breytinga á greiðsluþátttöku einstaklinga. Þ.e. þessi fækkun skýrist því að mestu af því að þeir sem þurfa að koma í fyrstu meðferð eiga ekki kost á að hefja ferlið þar sem kostnaðurinn er hreinlega of mikill. Ekki hefur farið fram greining á því hvort fólk af landsbyggðinni fari síður í meðferð sökum mikils ferðakostnaðar en áhugavert væri að skoða það nánar.

 Það kemur fyrir að eggheimta gengur ekki að óskum eða að eggin frjóvgast ekki. Þá eru engir fósturvísar til staðar til uppsetningar. Möguleiki á þungun er því enginn. Þá eru fyrir því ákveðin sanngirnisrök að slík meðferð sé að fullu niðurgreidd en þó ekki talin með niðurgreiddum meðferðum, eins og gert er þegar ekki verður af eggheimtu.

Nánar um tillöguna hér.