Vill að hlustað sé á ungt fólk
Sjö fulltrúar frá Suðurnesjunum á Ungmennaráðstefnu UMFÍ
Helgi Þór Hafsteinsson, fulltrúi ungmennaráðs Garðs, vill að hlustað sé betur á ungt fólk og þeirra skoðanir. „Við ræddum ýmislegt á þinginu og fórum yfir málefni allra, þar með talin málefni ungmenna,“ segir Helgi, en hann var einn af sjö fulltrúum Suðurnesja á ráðstefnu Ungs fólks og lýðræðis sem haldin var á Laugarbakka í Miðfirði. Þar voru meðal annars menntamál og geðræn vandamál mikið rædd.
„Fyrsta daginn komum við okkur fyrir og kynntumst hinum krökkunum. Svo var okkur skipt niður í málstofur þar sem við fjölluðum um ákveðin málefni. Flestir á þinginu voru að klára grunnskóla svo að ABC einkunnakerfið kom mjög sterkt inn. Mér finnst kerfið gott en mér finnst illa hafa verið farið að því þar sem margir kennarar kunna ekki á það ennþá,“ segir Helgi. Hann segist líka ósáttur með það að framhaldsskólanámið hafi verið stytt niður í þrjú ár. „Það eykur stressið hjá okkur nemendunum. Við fáum meiri pressu á okkur að klára þetta sem fyrst og minni tíma fyrir tómstundaiðkun utan skóla.“
Geðræn vandamál hafa verið mikið til umfjöllunar síðustu ár og telur Helgi mjög marga á landinu glíma við þunglyndi. „Á sumum stöðum er mjög erfitt að fá aðstoð og margir sem þora ekki að leita til sálfræðings. Biðlistarnir eru líka oft svo langt. Það getur tekið marga mánuði að fá hjálp og þá gæti það verið of seint.“