Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Viljum skapa enn fjölskylduvænna sveitarfélag“
Fimmtudagur 20. október 2005 kl. 01:01

„Viljum skapa enn fjölskylduvænna sveitarfélag“

Ráðstefna sem ber yfirskriftina Fjölskyldan í Reykjanesbæ verður haldin í Holtaskóla í Reykjanesbæ á laugardaginn og stendur frá klukkan 11 til 13. Þar verður fjallað um málefni fjölskyldunnar og leitað verður leiða til að skapa fjölskylduvænna samfélag. Boðið verður upp á barnagæslu meðan á ráðstefnunni stendur.


Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að ráðstefnan sé fyrst og fremst hugsuð til að efla enn frekar Reykjanesbæ sem fjölskylduvænt sveitarfélag. „Það hefur verið jákvæð uppbygging í þágu fjölskyldunnar hér í Reykjanesbæ, en það er alltaf hægt að gera betur og liður í því er að halda þessa ráðstefnu. Þar fáum við upplýsingar frá fagfólki sem þekkir vel til í þessum málaflokkum. Við getum hlustað og notfært okkur þær upplýsingar til að skapa enn fjölskylduvænna sveitarfélag,“ sagði Árni.

Hann telur að Reykjanesbær hafi nú þegar margt til að bera svo hann teljist fjölskylduvænn. „Til marks um það þá bjóðum við frítt í strætó. Við bjóðum frítt fornám í tónlist. Við erum með lægsta verð á skólamáltíðum í landinu. Hér eru engir biðlistar í leikskóla og hér er nægt framboð á íbúðarhúsnæði,“ sagði Árni. Þá segir hann að vel hafi til tekist með 88-Húsið þar sem félagslíf unglinga blómstrar og félagsstarf eldri borgara hefur einnig verið með miklum ágætum. Hann segir það stefnu bæjarstjórnar að gera Reykjanesbæ að vænlegum búsetukosti fyrir fjölskyldufólk.

„Á ráðstefnunni um helgina gefst fólki tækifæri til að hlusta á það sem fagfólk, sem þekkir vel til í þessum geira, hefur að segja. Ég hef mínar skoðanir á því hvað betur má fara til að gera Reykjanesbæ enn fjölskylduvænni. Það er líka gott fyrir okkur stjórnmálamenn að hlusta og fá önnur sjónarmið, áður en ákvarðanir eru teknar,“ sagði bæjarstjórinn.

„Það vilja auðvitað öll sveitarfélög búa vel að fjölskyldunum og við ætlum okkur að vera þar í fremstu röð. Það hefur verið unnið markvisst í þessum málum hjá Fræðsluskrifstofu bæjarins og er ráðstefnan hluti af þeirri vinnu. Ég tel okkur vera til fyrirmyndar á mörgum sviðum í þessum efnum, en við viljum gera betur og að því stefnt,” sagði Árni.

Eins og áður segir verður ráðstefnan í Holtaskóla og verður henni skipt í þrjá þætti. Í fyrsta lagi verður fjallað um fjölskyldur sem eru með ung börn þ.e.a.s. frá fæðingu til framhaldsskóla og verða fyrirlesarar í þeim hluta; Konráð Lúðvíksson, lækningaforstjóri HSS, Gylfi Jón Gylfason, yfirsálfræðingur á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og Inga Þórisdóttir, prófessor.
Í öðru lagi verður fjallað um eldri fjölskyldur og verða fyrirlesarar þar Jón Eyjólfur Jónsson, öldrunarlæknir, Berglind Magnúsdóttir, öldrunarsálfræðingur og Margrét Margeirsdóttir, formaður eldri borgara í Reykjavík.
Í þriðja lagi verður fjallað um fjölskyldur með stálpuð börn og verða fyrirlesarar Geir Sveinsson, framkvæmdastóri Íþróttaakademíunnar, Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur og Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Umræður verða í lok hvers hluta þar sem ráðstefnugestir ræða efni fyrirlestra og hópstjórar munu safna saman gögnum og skila til undirbúningshóps ráðstefnunnar. Niðurstöður hópanna verða síðan notaðar til að styrkja enn frekar og efla Reykjanesbæ sem fjölskylduvænt sveitarfélag.

Meðan á ráðstefnunni stendur verður boðið upp á barnagæslu og munu Solla stirða og Halla hrekkjusvín úr Latabæ koma og skemmta börnunum. Skemmtiatriði þeirra hefst klukkan 10.10.

Bæjarbúar er hvattir til að mæta og taka þátt í fróðlegum og skemmtilegum morgni í Holtaskóla á laugardaginn og vera með í að gera Reykjanesbæ að enn fjölskylduvænna sveitarfélagi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024