Vilja stórskipabryggju í Grindavík
Árni Johnsen er fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu þar sem skorað er á innanríkisráðherra að hefja undirbúning og kostnaðaráætlun að dýpkun og breikkun innsiglingarinnar í Grindavíkurhöfn og aðstöðu fyrir stórskipabryggju við Stórubót eða innan hafnar.
Þess er vænst að Siglingastofnun geti á skömmum tíma skilað hugmyndum að möguleikum bóta og uppbyggingar í Grindavík varðandi fiskiskipahöfn og aðstöðu flutningaskipa en mikilvægt er að hafa sem raunhæfasta kostnaðaráætlun til þess að vinna með að framgangi málsins.
Rannsóknir vegna þessara hugmynda hafa þegar verið unnar en eftir er að vinna nánar úr þeim. Mikilvægt er að ganga nú þegar til gerðar kostnaðaráætlunar og hugmynda að verkferli, bæði með tilliti til þess að Grindavíkurhöfn er ein mikilvægasta fiskihöfn landsins og að margvísleg áform eru uppi um iðnað í stórum stíl sem kallar á stórskipalægi.
Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að innsiglingin í Grindavíkurhöfn hefur lengi verið ein erfiðasta innsigling landsins en harðsækni sjómanna þar hefur aldrei slaknað og því er Grindavík ein öflugasta verstöð landsins og í fararbroddi á margan hátt. Um 35 þúsund tonn af fiski fara um höfnina á ári hverju. Þá eru uppi margvísleg áform um stóriðju í tengslum við orkunýtingu á hinu orkuríka svæði í landi Grindavíkur og nágrennis. Ljóst er að á næstu missirum og árum verður gengið til framkvæmda á þeim vettvangi. Þess vegna er mikilvægt að ljóst liggi fyrir um möguleika á og kostnaði við gerð stórskipabryggju.
Höfnin getur nú þegar tekið á móti allt að 6-7 þúsund lesta skipum en til að mynda tvöföldun í þeim efnum myndi skipta miklu máli. Þá gæti höfnin tekið á móti a.m.k. 130 metra löngum skipum og 20 metra breiðum í stað um 100 metra löngum og um 16 metra breiðum skipum eins og nú er. Reynsla af síðustu aðgerðum í gerð garða og dýpkun og breikkun innsiglingarinnar í rennunni inn að höfninni, u.þ.b. 300 metra lengd, hefur reynst vel en þó kom fljótt í ljós að rennan þyrfti að vera a.m.k. 20 metrum breiðari þannig að hún væri minnst 50 metra breið alla leið.
Nauðsynlegum rannsóknum á innsiglingu og endurbótum á bryggjuplássi er lokið hjá Siglingastofnun en eftir er að vinna úr þeim, meta og gera tillögur að gerð mannvirkja og kostnaðaráætlun. Þessa þætti er mikilvægt að fá upp á borðið nú þegar, ekki síst þar sem öllum grunnrannsóknum er lokið. Rannsóknir Siglingastofnunar á innsiglingunni í Grindavíkurhöfn og aðstæðum þar voru mjög viðamiklar og hafa m.a. reynst grunnurinn að hönnun mannvirkja við gerð Landeyjahafnar við Bakka á Landeyjasandi. Þess er vænst að Siglingastofnun geti á skömmum tíma skilað hugmyndum að möguleikum bóta og uppbyggingar í Grindavík varðandi fiskiskipahöfn og aðstöðu flutningaskipa en mikilvægt er að hafa sem raunhæfasta kostnaðaráætlun til þess að vinna með að framgangi málsins að því er segir í frétt Tímans.
Grindavik.is