Vilja slíta samstarfi við Reykjanesbæ
- í málefnum fatlaðra.
Reykjanesbær vill vera leiðandi sveitarfélag á Suðurnesjum í málefnum fatlaðra. Hin sveitarfélögin sætta sig ekki við það og hafa farið fram á að losna út úr samstarfinu. Velferðarráðuneytið hafnaði beiðni þeirra. Fréttablaðið og Vísir.is greina frá.
Það eru Garður, Vogar, Sandgerði og Grindavík sem vilja slíta samstarfinu og við endurnýjun þjónustusamnings um málefni fatlaðra, sem átti að renna út um áramótin, fór Reykjanesbær fram á að verða leiðandi sveitarfélag eða sjá um málaflokkinn einn. Anna Lóa Ólafsdótti, forseti bæjarstjórnar Reykanesbæjar, segir í viðtalið við Fréttablaðið að ástæðan sé að samstarfið í núverandi mynd hafi ekki gengið sem skyldi. Allir hafi ætlað að vasast í málefninu.
Hin sveitarfélögin fjögur vildu ekki sætta sig við forystu Reykjanesbæjar í málaflokknum og Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir í samtali við Fréttablaðið að þá væri framselt talsvert mikið vald á þjónustu þeirra við íbúa og þeir hefðu ekkert um þjónustuna að segja nema í einhverju samráði.
Sveitarfélögin fjögur munu funda með samráðsnefnd velferðarráðuneytisins á næstunni, að því er fram kemur í fréttinni.