Vilja setja upp deilileigu fyrir rafhlaupahjól í Reykjanesbæ
Hopp Mobility ehf. hefur lagt fram erindi í Reykjanesbæ um að veitt sé leyfi fyrir Joseph Feyen til að opna og reka stöðvalausa deilileigu fyrir rafhlaupahjól í Reykjanesbæ. Þjónustan væri rekin sem sérleyfi (e. franchise) undir formerkjum Hopp Mobility ehf., sambærileg og í Reykjavík og Vestmannaeyjum.
Í erindinu segir að sérleyfið væri tímabundið í tvö til þrjú ár sem eina deilileigan á svæðinu. Umhverfissviði Reykjanesbæjar hefur verið falið að gera drög að tímabundnum samningi til reynslu um afnot af bæjarlandi fyrir og rekstur á stöðvalausri deilileigu fyrir rafhlaupahjól og leggja fyrir umhverfis- og skipulagsráð.
Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frestaði erindinu á fjarfundi sem haldinn var 15. janúar síðastliðinn.