Vilja ráða 20-30 Suðurnesjamenn og bjóða góð laun
Tveir Joe & the Juice veitingastaðir opna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um áramótin.
„Við stefnum að því að ráða á bilinu 20-30 manns og munum bjóða góð laun. Breytingarnar sem verða á veitingasölunni á næstunni fela það óhjákvæmilega í sér að sumt starfsfólk missir störf sín hjá þeim rekstraraðilum sem hverfa úr flugstöðinni. Við viljum hvetja þetta fólk til að sækja um starf á nýjum veitingastöðum Joe & the Juice . Við leggjum áherslu á að fá til liðs við okkur starfsfólk af svæðinu og viljum endilega nýta okkur reynslu þess úr vinnunni í flugstöðinni,“ segir Daníel K. Stefánsson, rekstrarstjóri Joe & the Juice sem mun opna tvo veitingastaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um áramótin.
„Við erum mjög þakklát fyrir þær góðu undirtektir sem hugmyndir fyrirtækisins fengu hjá forvalsnefnd flugstöðvarinnar og það er okkur heiður að vera treyst til þess að taka þátt í að efla flugstöðina enn frekar og gera okkar stað að framúrskarandi valkosti fyrir farþega. Fyrirhugað er að opna Joe & the Juice á tveimur stöðum í flugstöðinni, í brottfararsal og í innritunarsal áður en farið er í gegnum vopnaeftirlit. Framkvæmdir munu hefjast fljótlega og vonandi náum við að opna snemma á næsta ári.“
Joe & the Juice hefur að sögn Daníels talsverða reynslu af rekstri á flugvöllum en veitingakeðjan er með tvo staði á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn og einn á Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi. Var Joe & the Juice á Kastrup m.a. valinn besta flugvallarkaffihús heims á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni FAB (Airport Food and Beverage Awards) tvö ár í röð.
„Joe Ísland ehf. er í meirihluta eigu Pizza Pizza ehf. sem rekur Domino’s Pizza á Íslandi. Fyrirtækið borgar því að sjálfsögðu alla sína skatta og gjöld á Íslandi,“ sagði Daníel.