Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja ná 900 milljón króna aukinni framlegð
Mánudagur 27. október 2014 kl. 09:14

Vilja ná 900 milljón króna aukinni framlegð

– Ráðast í sérstaka aðgerðaráætlun í samræmi við tillögur KPMG

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að fara í sérstaka aðgerðaráætlun í samræmi við tillögur KPMG. Ákveðið var samhljóða í tíð fyrrverandi bæjarstjórnar að vinna umrædda skýrslu og núverandi bæjarstjórn hefur unnið áfram í samræmi við það. Er því full samstaða um niðurstöður hennar. Skýrsla KPMG um fjárhagsstöðu og framtíðarhorfur bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar lögð fram á fundi bæjarráðs fyrir helgi. Áætlunin beri nafnið „Sóknin“. Í skýrslunni eru settar fram tillögur að markmiðum  um aðgerðir í rekstri bæjarsjóðs, verkefnum sem snúa að B-hluta fyrirtækjum, áherslum í fjárfestingum og aðgerðum vegna efnahags. Jafnframt var samþykkt á fundi bæjarráðs að fram fari opinn kynningarfundur í Stapa, miðvikudaginn 29. október kl. 20:00 þar sem skýrsluhöfundar ásamt bæjarstjóra verði til svara um efni hennar.

Bæjarráð samþykkti á síðasta fundi sínum yfirmarkmið sem snúa að rekstri og aukinni framlegð A-hluta bæjarsjóðs. Í því felst að ná fram a.m.k. 900 milljón króna aukinni framlegð í rekstri bæjarsjóðs á árinu 2015 og næstu ár þar á eftir. Til að byrja með verði markmiðinu náð með 500 milljón króna hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og 400 milljón króna auknum tekjum. Nánari útfærsla verður lögð fram á næstu vikum, í síðasta lagi í fjárhagsáætlun ársins 2015 í lok nóvember nk.

Bæjarráð samþykkti jafnframt að fram fari endurskoðun á skipulagi og skipuriti Reykjanesbæjar með það að markmiði að auka skilvirkni og hagræða í rekstri. Tillögur liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2015. Bæjarráð samþykkti einnig að unnin verði sérstök greining á launagreiðslum innan sveitarfélagsins, þ.m.t. greiðslum vegna yfirvinnu, bifreiðastyrkjum og öðrum greiðslum, sem eru utan kjarasamninga. Niðurstöður liggi fyrir sem fyrst, eigi síðar en 30. nóvember 2014. Tímabundið bann verður við nýráðningum starfsfólks innan bæjarskrifstofunnar og að reynt verði að manna lausar stöður með núverandi starfsfólki. Jafnframt verði ekki endurráðið í stöður undirstofnana nema með sérstöku samþykki bæjarráðs.

Skýrsla KPMG lýsir kröfu um aðgerðir án þess að vænst sé nýrra atvinnuverkefna sem ekki hafa nú þegar samninga að baki. Verði til ný atvinnuverkefni mun það styrkja fjárhagsstöðu bæjarins en bæjarráð er sammála um að það breyti ekki, á allra næstu misserum, þeim áformum sem sett eru fram í skýrslunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024