Vilja láta kanna spillingu í stjórnkerfi Reykjanesbæjar
Samfylkingin í Reykjanesbæ leggur til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Yrði henni m.a. ætlað að kanna aðkomu stjórnmálamanna að fjáhagslegum ákvörðunum, hvort einstakir aðilar hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og hvort fjársterkir aðilar hafi beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram bókun þessa efnis á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Í henni er lagt til nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Reykjanesbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.
Í bókuninni segir ennfremur:
„Aðalverkefni nefndarinnar verði:
-Að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
- Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
- Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
- Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
- Að kanna hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við bæinn.
- Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir“.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi meirihlutans, tók til máls og sagði að með þessari bókun væri verið að gefa til kynna að eitthvað óeðlilegt væri í gangi í stjórnsýslu bæjarins. Hann vildi því fá að vita hver kveikjan væri að slíkum hugmyndum sem fengi bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar til að setja fram bókun með þessum hætti. Böðvar sagði það athyglisvert að texti bókunarinnar væri settur fram eins og um tillögu væri að ræða en lagður fram sem bókun. Taldi hann að það væri líklega gert til að komast hjá umræðu og atkvæðagreiðslu.
„Þetta er eins og að lesa DV,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri, m.a. um bókunina.