Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar
Húsnæði Landhelgisgæslunnar á Ásbrú.
Þriðjudagur 16. september 2014 kl. 16:15

Vilja Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar

Þingmenn Suðurkjördæmis meðflutningsmenn tillögunar

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi leggur í annað sinn fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess eðlis að hefja undirbúning á flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Meðflutningsmenn með frumvarpinu eru einnig Suðurnesjaþingmennirnir; Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson, Oddný G. Harðardóttir og Ásmundur Friðriksson.

Að mati flutningsmanna fylgja fjölmargir kostir því að flytja alla starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin, nánar tiltekið á öryggissvæðið á Ásbrú, en nú þegar er Landhelgisgæslan með umfangsmikla starfsemi á svæðinu og þúsundir fermetra af vannýttu húsnæði. Það fylgir því mikil hagræðing að hafa alla starfsemina á einum stað og þjónusta og öryggi munu einnig aukast þar sem viðbragðstími Landhelgisgæslunnar styttist með því að færa alla starfsemi hennar. Einnig mun flugfloti gæslunnar komast í gott framtíðarhúsnæði sem uppfyllir öryggisstaðla. Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er til staðar afar heppileg aðstaða fyrir alla starfsemi Landhelgisgæslunnar til framtíðar. Þar er húsnæði, flugbrautir, góð hafnaraðstaða og stoðkerfi sem fullnægir þörfum Landhelgisgæslunnar að öllu leyti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Enn fremur segir í tillögunni að mannvirkin sem um ræðir á öryggissvæðinu séu nú þegar í rekstri Landhelgisgæslunnar og með því að nýta þau betur undir starfsemi gæslunnar næðist mikil fjárhagsleg hagræðing fyrir ríkið til lengri tíma. Óverulegar breytingar þarf að gera á þessum byggingum svo þær henti starfsemi gæslunnar og í þessu samhengi er rétt að benda á ábyrgð ríkisins gagnvart Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins varðandi viðhald og rekstur mannvirkjanna.
 

Í tilögunni er það nefnt að með flutningi til Suðurnesja fengi Landhelgisgæslan gott framtíðarhúsnæði og stórbætta aðstöðu. „Á svæðinu er einkar góð hafnaraðstaða: Njarðvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Helguvíkurhöfn. Nú þegar ber Landhelgisgæslan ábyrgð á rekstri hluta Helguvíkurhafnar, þ.e. þess hluta sem er á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Úttekt á nauðsynlegum breytingum á hafnaraðstöðu liggur fyrir (2009).

Njarðvíkurhöfn getur strax tekið við skipaflota Landhelgisgæslunnar og Helguvíkurhöfn kemur einnig til greina. Landhelgisgæslan rekur nú þegar öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og fer með framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna, auk þess sem sprengjueyðingarsveitin hefur aðstöðu á svæðinu. Þess má einnig geta að sérsveit ríkislögreglustjóra er með aðstöðu á öryggissvæðinu og hópar á vegum lögreglu og Lögregluskólans æfa þar. Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla, aðstaðan fyrir starfsemina yrði mun betri og tryggð til framtíðar og síðast en ekki síst mundi flutningurinn styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu öllu,“ segir í ályktunni.