Vilja lægra eldsneytisverð á Suðurnesjum
Um 600 manns hafa skrifað undir áskorun til olíufélaganna þar sem krafist er lægra eldsneytisverðs á Suðurnesjum. Það er Haukur Hilmarsson sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni á síðunni www.change.org.
„Olíufélögin keppast um að auglýsa um verð sín á bensíni og olíum. Það gera þau undir því yfirskini að samkeppni ríki á milli þeirra og þau séu á hverjum tíma að bjóða viðskiptavinum sínum bestu verðin.
Þessar auglýsingar eiga sér það sameiginlegt að beinast að tveimur svæðum, Stór Reykjavíkursvæðinu í kringum Costco og á Akureyri. Aðrir staðir á landinu njóta ekki svonefndrar samkeppni Olíufélaganna. Olíufélögin treysta sér þannig ekki í samkeppni á bensín og olíuverði á Suðunesjum, ekki geta þau þó borið fyrir umtalsverðum auknum flutningskostnaði enda bara rúmlega 40 km á milli birgðastöðvarinnar í Örfisey og Reykjanesbæjar.
Við íbúar í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum öllum krefjumst þess að við fáum að sitja við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins og njóta samkeppni olíufélaganna. Við viljum sama verð,“ skrifar Haukur Hilmarsson.
Hér má taka þátt í undirskrifasöfnuninni.