Vilja hlaða 530 metra af sjóvörnum á Vatnsleysuströnd
Vegagerðin hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við sjóvarnagarða á þremur stöðum á Vatnsleysuströnd.
Fyrst má nefna um 240 metra langan sjóvarnagarð við Stóru-Vogaskólai og eiðið við Vogatjörn í Vogum. Umhverfis- og skipulagsnefnd Voga frestar afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi þar til liggur fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um matskyldu og umsagnir Umhverfisstofnunar og Minjaverndar.
Við Stóra-Knarrarnes á Vatnsleysuströnd óskar Vegagerðin eftir að gera alls um 150 metra langan sjóvarnagarð. Umsóknin samræmist aðalskipulagi en ekki liggur fyrir deiliskipulag. Lagt er til að óskað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli aðalskipulags.
Að endingu óskar Vegagerðin eftir að gera 140 metra langan sjóvarnagarð við Narfakot á Vatnsleysuströnd. Umsóknin samræmist aðalskipulagi en ekki liggur fyrir deiliskipulag. Lagt er til að óskað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli aðalskipulags.