Vilja hefja landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum
Nokkrir þingmenn Reykjanes- og Suðurlandskjördæmis hafa lagt fram þingsályktun um að hefja landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum. Því er beint til landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa stofnun landshlutabundins verkefnis til landgræðslu og skógræktar á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum nógu tímanlega svo að framkvæmd verkefnisins geti hafist eigi síður en árið 2001. Í greinagerð flutningsmanna tillögunnar segir m.a. „Fá láglendissvæði á landinu eru jafnilla leikin og Suðurnesin, þrátt fyrir friðun síðustu ár. Gríðarleg jarðvegsrýrnun háir verulega landgræðslu og skógrækt sem gengur hægt þrátt fyrir öflugt starf Suðurnesjamanna. Mikill berangur skýrir einnig erfiðleika á þessu sviði. Aðstæðurnar kalla því á sérstakt átak.“