Vilja halda ungmennaþing
Ungmennaráð Grindavíkur fundaði í gærkvöldi með bæjarstjórn Grindavíkur, en þar kom meðal annars fram í máli nýs formanns ráðsins, Karínar Ólu, að áhugi væri fyrir því að halda ungmennaþing í Grindavík í lok febrúar þar sem öllum ungmennaráðum úr Suðurkjördæmi yrði boðið og þemað yrði umferðaröryggi ungs fólks.
Fleiri mál voru borin upp á fundinum meðal annars þau að hafa opið hús fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára, laga þyrfti skemmdir á Víkurbrautinni, bæta þyrfti aðstöðu fyrir hjólabrettaáhugamenn og einnig var spurst fyrir hvenær ærslabelgur/hoppbelgur kæmi en ungmennaráð kom með tillögu um hann í október síðastliðinn.
Fundurinn var málefnalegur og voru bæjarfulltrúar duglegir að lýsa ánægju sinni yfir störfum ungmennaráðsins. Þetta kemur fram á heimasíðu Grindavíkurbæjar.