Vilja gervigras vestan Reykjaneshallar
Knattspyrnudeildir Keflavíkur og Njarðvíkur leggja ofuráherslu á að nýr gervigrasvöllur verði gerður vestan við Reykjaneshöll sem allra fyrst sem nýtist bæði sem æfingar- og keppnisvöllur fyrir bæði Keflavík og Njarðvík.
Þetta kemur m.a. fram í bréfi sem Leifur Gunnlaugsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Njarðvíkur og Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags hafa ritað til íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar.
Ráðið tekur undir hugmyndir forsvarsmanna Keflavíkur og Njarðvíkur um að nauðsynlegt sé að huga að því sem allra fyrst að útbúa nýjan gervigrasvöll og er sammála því að staðsetning vestan Reykjaneshallar geti verið heppilegur kostur. Íþrótta- og tómstundaráð ráð leggur til að farið verði í heildarstefnumótun í málaflokknum sem fyrst og er erindinu vísað til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2019.