Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja fundargögn bæjarráðs á vefinn
Miðvikudagur 2. apríl 2014 kl. 09:56

Vilja fundargögn bæjarráðs á vefinn

- mikilvæg skref til aukins gegnsæis fyrir bæjarbúa.

„Tillögu bæjarfulltrúa okkar um birtingu allra fundargagna á vef Reykjanesbæjar var vel tekið á bæjarstjórnafundi. Reyndar ekki samþykkt, eins og sambærileg tillaga okkar fólks í Árborg, heldur vísað til bæjarráðs sem var falið vinna að frekari útfærslu og vinnureglum. Okkar fólk mun sjá til þess að þessi mikilvægu skref til aukins gegnsæis dagi ekki uppi í bæjarráði,“ segir í tilkynningu frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Lögð var fram tillaga um birtingu fundargagna á fundir bæjarráðs í gær af hálfu bæjarfulltrúanna. Þeir leggja til að framvegis verði minnisblöð, fundargerðir og önnur gögn sem fylgja málum og fundargerðum sem til umfjöllunar eru á fundum bæjarstjórnar, bæjarráðs og fagnefnda sveitarfélagsins gerð aðgengileg rafrænt með fundargerðum á vefsíðu Reykjanesbæjar.

Í greinargerð kemur fram að afar mikilvægt sé að í Reykjanesbæ sé ástunduð opin og gegnsæ stjórnsýsla þannig að allir sem áhuga hafa á geti fylgst með afgreiðslum mála og hafi möguleika á að kynna sér öll þau gögn sem afgreiðslur mála eru grundvallaðar á. Þrátt fyrir að fundargerðir sem liggi fyrir bæjarstjórn hverju sinni séu aðgengilegar á vefnum þá sé ekki auðvelt að átta sig á málum, m.a. vegna þess knappa stíls sem oft einkenni þær. Auk þess sé oft vitnað til fylgigagna í fundargerðunum sem ekki fylgji með rafrænt.  

„Okkur ber skylda til að gera stjórnsýsluna sem aðgengilegasta fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Birting allra fylgiskjala á vefsíðu bæjarins er skref í þá átt.“

Undir greinargerðina skrifa Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024