Vilja flýta tvöföldun Reykjanesbrautar
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fagnaði því á fundi sínum s.l. þriðjudag, að þingmenn Reykjaneskjördæmis ætli að leita leiða til að flýta tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Hafnarfirði til Keflavíkurflugvallar. Á gildandi vegaáætlun er miðað við að henni verði lokið árið 2010. „Tvöföldun Reykjanesbrautar er sú aðgerð í vegamálum sem kemur flestum landsmönnum til góða. Margsinnis hefur hún orðið tilefni ályktana og bókana á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Tvöföldun brautarinnar eykur umferðaröryggi margfalt á fjölfarnasta þjóðvegi landsins og vill bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvetja þingmenn til þess að vinna áfram að að því að leita leiða til þess að flýta framkvæmdinni.“ Þetta kom fram í ályktun meirihluta bæjarstjórnar en fulltrúar minnihlutans báru það fyrir sig að hafa ekki komist á fundinn því fundartíminn hefði ekki verið sniðinn að þörfum vinnandi manna. Ályktunin var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum.