Vilja fimm ára í grunnskóla til að létta á leikskólunum
- Kristín María Birgisdóttir, oddviti G- lista Grindvíkinga
Kosið er til bæjarstjórnar í Grindavík á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Grindavík.
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Dagvistunarmál, leikskóla og skólamál, húsnæðismál og málefni eldri íbúa myndi ég telja að væri helstu málin.
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Dagvistunar- og húsnæðismálin hafa brunnið mikið á fólki. Við í G-listanum erum með lausnir og leiðir til að bregðast við því í okkar stefnuskrá. Hvað varðar dagvistunarmálin þá er óhætt að segja að Grindavíkurbær hafi gengið hvað lengst í að reyna að laða dagforeldra til starfa. Nú síðast með kaupum á húsi undir starfsemina. Komumst við í bæjarstjórn ætlum við að setja fullan kraft í að þrýsta á ríkið að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Samhliða þeirri vinnu ætlum við að stækka Hópsskóla og kanna möguleikann á að taka þar inn 5 ára deild. Þannig tappast af þeim leikskólum sem fyrir eru svo hægt verði að taka börn inn 12 mánaða án þess að ráðast í byggingu nýs leikskóla, sem er ekki tímabært í bráð að okkar mati. Svo er það verðugt verkefni sveitarfélaga að vinna að því að bæta starfsumhverfi og kjör, bæði leik- og grunnskólakennara því það stefnir í að í framtíðinni sækist fólk ekki eftir því að fagmennta sig á þessum sviðum. Það er verulegt áhyggjuefni.
Hvað varðar húsnæðismálin þá erum við með lausn þar sem felst í því að stuðla að byggingu ódýrra leiguíbúða. Þar höfum við helst í huga þá tekjulægri í sveitarfélaginu. Hugmynd okkar gengur út á það að bæði ríki og sveitarfélag leggi til fjármagn í verkefnið sem stofnframlag. Áætlað er að heildarhlutur ríkis og sveitarfélags séu á bilinu 30-34% en það fer eftir húsnæðisþörfinni í Grindavík. Það hlutfall sem eftir stendur mun síðan heyra undir þá sjálfseignarstofnun sem tekur þátt í verkefninu og er rekin án hagnaðarmarkmiða. Hugmynd okkar í G-listanum er að byrja á byggingu 10 íbúða sem væru 85 fermetrar að stærð með þremur svefnherbergjum. Greiðslubyrgði fer aldrei yfir 25% af heildartekjum leigjanda að teknu tilliti til húsnæðisbóta. Við í G-listanum viljum að Grindavíkurbær kaupi tvær af þessum íbúðum og noti í félagsþjónustuna.