Vilja fíkniefnasala burt af bæjarhlaðinu
Íbúar í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd eru orðnir þreyttir á því að bæjarhlaðið hjá þeim sé notað til fíkniefnaviðskipta. Þeir hafa skorið upp herör gegn fíkniefnasölum og kaupendum með góðum árangri.
Brunnastaðahverfið er þyrping íbúðahúsa í friðsældinni á Vatnsleysuströnd. Íbúarnir hafa hins vegar orðið varir við aukna umferð um svæðið hjá sér þar sem ekin er hringleið í hverfinu. Í skjóli við húsin hefur svo sést til manna skiptast á pökkum og ljóst að þar er verið að eiga í fíkniefnaviðskiptum.
Íbúi á svæðinu, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að í síðustu viku hafi lögreglan handtekið par á svæðinu sem hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Þau hafi verið mætt á svæðið til að kaupa fíkniefni. Skömmu síðar hafi lögreglan einnig handsamað meintan sölumann. Lögreglan staðfestir þetta og segir að í kjölfar ábendingar um að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað hafi lögreglubíll í nágrenninu verið sendur á staðinn. Hafi lögreglumenn handtekið einstaklinga og er mál þeirra nú til meðferðar.
Gunnar Schram hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir það rétt viðbrögð að gera lögreglu viðvart þegar það telur sig verða vart við grunsamlegar mannaferðir. Það hafi sýnt sig fyrir fáeinum dögum þegar afkastamiklir innbrotsþjófar hafi verið stöðvaðir eftir ábendingu íbúa.
Sama á við þegar fólk hefur grun um fíkniefnamisferli. Betur sjái augu en auga og því tekur lögreglan við öllum ábendingum og vinnur út frá þeim.
Íbúinn sem Víkurfréttir ræddu við benti einnig á að á bakvið atvinnuhúsnæði á Vatnsleyuströnd hafi einnig fundist nokkur svokölluð hasslón sem séu gerð úr gosflöskum og notuð við reykingar á fíkniefnum. Það sé þekkt að ungt fólk fari í ökuferðir út fyrir bæinn og reyki hass í bílum í skjóli bygginga og myrkurs. Í samtali Víkurfrétta við lögregluna kom fram að í dag séu svipað margir teknir undir áhrifum fíkniefna í umferðinni á Suðurnesjum eins og undir áhrifum áfengis.
Íbúarnir í Brunnastaðahverfinu ætla að minnka ónæðið í sínu friðsæla hverfi með því að loka á hringaksturinn. Þannig vilja þeir koma í veg fyrir m.a. að heimreiðin eða bæjarhlaðið sé notað til að versla með fíkniefni. „Ég vaki oft um nætur og verð var við alla þá umferð sem fer hér um hlaðið,“ segir viðmælandi blaðsins og bætir því við að þessi umferð sé íbúunum á svæðinu óviðkomandi og þarna sé fólk ekki að njóta sveitasælunnar um hánótt.