Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja félagsráðgjafa á Ásbrú
Föstudagur 13. janúar 2012 kl. 10:08

Vilja félagsráðgjafa á Ásbrú

Félagsmálaráð Reykjanesbæjar hefur óskað eftir samstarfi við Kadeco, Keili og Háskólavelli um að fjármagna eitt stöðugildi félagsráðgjafa tímabundið, sem hefði aðstöðu á Ásbrúarsvæðinu. Samanburður milli hverfa sýnir að þróunin hvað varðar félagslega þjónustu er áhyggjuefni, ekki síst hvað Ásbrú varðar. Á síðasta fundi fjölskyldu- og félagsmálaráðs hjá Reykjanesbæ var lýst yfir áhyggjum af Ásbrú sem enn er ungt samfélag sem mikilvægt sé að hlúa vel að. Það hverfi sé í grundvallaratriðum ólíkt öðrum hverfum sveitarfélagsins.

„Við lögðum þetta til á síðasta fundi og yrði af þessu myndi félagsráðgjafi sérstaklega sinna því svæði. Félagslega þróunin á svæðinu öllu er áhyggjuefni en Ásbrú er ungt samfélag og það er mikilvægt að bregðast rétt og fljótt við ef það er mögulegt. Áður en hlutirnir fara kannski í einhverja erfiða stöðu,“ segir Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri hjá Reykjanesbæ. Hún segir lögregluna einnig hafa sóst eftir því að fá aðstöðu á Ásbrú og að hugsunin sé sambærileg að hálfu fjölskyldu- og félagsmálaráðs. Enn sé þetta þó í formi hugmyndar og spurning hvernig tekið verði í hana í bæjarstjórn og í framhaldinu hjá forsvarsmönnum á Ásbrú. „Það er víst nóg til af hugmyndum en lítið til af peningum,“ sagði Hjördís að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024