Vilja eyða villiköttum með varanlegum árangri
Bæjarráð Grindavíkur hefur óskað eftir greinargerð frá forstöðumanni tæknideildar bæjarins vegna átaks sem gera á í eyðingu villikatta í Grindavík. Er forstöðumaður tæknideildar bæjarins beðinn um greinargerð um hvernig best sé að haga eyðingu villikatta þannig að varanlegur árangur náist. Ekki koma fram tímamörk hvenær ráðist verður í eyðinguna en ljóst má vera af erindinu að villikettir eiga ekki að sjást í Grindavík í framtíðinni.
Þrátt fyrir tilraunir tókst Víkurfréttum ekki hafð hafa uppi á þeim sem fara með þennan málaflokk í Grindavík nú fyrir helgina.
Mynd: Villiköttur í grjótgarði í Keflavík. Reykjanesbær hefur ekki boðað eyðingu villikatta með jafn varanlegum árangri og Grindvíkingar.