Vilja ekki háhýsi við Aðalgötu
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi í lok september að skoða hugmyndir varðandi byggingu átta hæða húss við Aðalgötu 7-9. Í febrúar á þessu ári var samþykkt deiliskipulag fyrir þetta svæði og þá var ákveðið að reisa tvö einbýlishús á þessum lóðum. Málið var til umræðu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðustu viku. Minnihlutinn er alfarið á móti að háhýsi verði reist á þessari lóð en meirihlutinn telur sjálfsagt að skoða málið og þær tillögur sem fram kunna að koma.Jóhann Geirdal (S) sagði að deiliskipulag fyrir umrætt svæði, væri aðeins átta mánaða gamalt og nær væri að deiliskipuleggja aðra hluta bæjarins sem ekki hafa verið skipulagðir, heldur en að breyta því sem þegar hefur verið skipulagt. Hann lagði fram tillögu um að byggingu fleiri háhýsi í gamalgrónum bæjarhlutum, verði hafnað. Fulltrúar minnihlutans undirrituðu tillöguna en í meðfylgjandi greinargerð segir m.a.: „Okkur ber að umgangast skipulögð svæði með ákveðinni íhaldssemi og virðingu, þannig að ekki skapist umhverfislegur eða hagsmunalegur skaði af. Nú liggja fyrir hugmyndir um byggingu allt að 8 hæða háhýsis í gömlum bæjarhluta. Er sú hugmynd alfarið tilkomin vegna hugmynda eins byggingaverktaka um framkvæmdamöguleika en tekur á engan hátt tillit til þeirra umhverfisskemmda sem framangreind bygging veldur né hagsmuna íbúa svæðisins.“ Ellert Eiríksson (D) bæjarstjóri, sagði að það hefði verið samhuga niðurstaða Skipulags- og byggingarnefndar að kanna málið, varðandi byggingu háhýsis við Aðalgötu 7-9. Hann upplýsti fundarmenn jafnframt um að álit Bjarna Marteinssonar, arkitekts, myndi liggja fyrir næsta fundi bæjarstjórnar.Skúli Þ. Skúlason (B) forseti bæjarstjórnar, sagðist ekki sjá fyrir sér háhýsi á þessum stað en að hann væri tilbúinn að skoða málið og áskildi sér rétt til að taka afstöðu þegar tillögurnar lægju fyrir.Tillaga minnihlutans var felld 7:4.