Vilja ekki fjarskiptamastur Mílu í Grindavík
Í ljósi mótmæla íbúa í Grindavík vegna fyrirhugaðrar uppsetningar á 18 metra háu fjarskiptamastri við Víkurbraut 25 þá leggur skipulagsnefnd Grindavíkur til við bæjarstjórn að erindinu verði hafnað.
Míla ehf. hafði óskað eftir byggingarleyfi fyrir uppsetningu á 18 metra háu fjarskiptamastri við Víkurbraut 25. Erindið var tekið fyrir á síðasta fundi skipulagsnefndar Grindavíkur. Fyrirhuguð framkvæmd hefur verið grenndarkynnt en á grenndarkynningartíma barst undirskriftalisti frá 33 aðilum í nágrenni Víkurbrautar 25. Með undirskriftalistanum er fyrirhugaðri framkvæmd mótmælt.
Það liggur því fyrir að Míla verður að finna mastrinu annan stað.