Vilja efla atvinnuþróun á Suðurnesjum
Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi [SAR] telja þörf á því að efla atvinnusókn á Suðurnesjum í þeim tilgangi að sameina krafta þeirra sem vinna að atvinnuþróunarmálum og gera sóknina markvissari. Þetta kemur fram í ályktun sem fundur SAR samþykkti rétt í þessu.
„Skýra stefnu þarf í því hvers konar atvinnustarfsemi vilji er fyrir að sækja á byggt m.a. á innviðum, þekkingu og náttúru svæðisins,“ segir í ályktuninni sem var til umfjöllunar á fundi SAR sem haldinn var á Park Inn hótelinu nú í hádeginu.
Í ályktuninni segir einnig: „Á Suðurnesjum liggja öll helstu tækifæri til atvinnuuppbyggingar og þróunar á landsbyggðinni, hvort sem horft er til Keflavíkurflugvallar, orkunýtingar, ferðaþjónustu og/eða sjávarútvegsins. Með markvissri sókn á ný tækifæri aukum við verðmætasköpun og byggjum upp nýjar stoðir sem munu til framtíðar styrkja og efla okkar svæði.
Lagt er til að atvinnuþróunarfélagið Heklan verði efld til að geta tekið þetta hlutverk,“ segir í ályktun stjórnar SAR sem samþykkt var á fundinum nú í hádeginu.