Vilja blása lífi í byggingaframkvæmdir í Reykjanesbæ
Gatnagerðargjöld lækka um 30% á næsta ári.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti tillögu Umhverfis- og skipulagsráðs um að gatnagerðargjöld verði lækkuð um 30% á árinu 2014. Með lækkuninni verði stuðlað að því að blása lífi í glæður byggingaframkvæmda í Reykjanesbæ á nýjan leik.
Frá því að ný gjaldskrá gatnagerðargjalda tók gildi í Reykjanesbæ árið 2007 hefur byggingarvísitala hækkað um 61,5%. Gjöldin séu því orðin verulega hár kostnaðarliður við nýbyggingu húsa og íbúða og einn af ráðandi þáttum þegar húsbyggjendur taka ákvörðun um staðsetningu. Frá hruni hefur lítið gerst í nýbyggingu húsa og íbúða en merki eru um betri horfur í þeim efnum á næstunnni.
Lækkun gatnagerðargjalda mun ekki hafa áhrif á fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2014 að öðru leyti en því að auknar framkvæmdir gætu skilað auknum tekjum fyrir bæjarfélagið.