Vilja betri samgöngur milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins
Mikilvægt að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar og tengja svæðin betur saman, segir í sameiginlegri ályktun nefndanna.
Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðis hvetja ríkisstjórnina fyrir því að beita sér fyrir bættum samgöngum milli svæðanna, m.a. að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar. Nefndirnar hittust á fundi 12. maí í Reykjanesbæ þar sem rædd voru sameiginleg viðfangsefni og hagsmunamál og til að leggja grunn að öflugra samstarfi milli svæðanna í framtíðinni.
Í sameiginlegri ályktun nefndanna segir einnig:
Svæðisskipulagsnefndirnar eru sammála um að höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin eru hluti af einu vinnusóknar- og búsetusvæði, og að lífsgæði og samkeppnishæfni svæðanna grundvallist á, greiðum, vistvænum og öruggum samgöngum fyrir atvinnulíf, gesti og íbúa.
Nefndirnar hvetja ríkisstjórnina að beita sér fyrir bættum samgöngum milli svæðanna, fyrir alla ferðamáta. Þar verði lögð sérstök áhersla á að:
Staðið verði við fyrirliggjandi áform um aðskilnað akstursleiða á Reykjanesbraut milli þéttbýlissvæðanna en um hana fara nánast allir ferðamenn sem koma til landsins með flugi. Það er því mikilvægt að klára tvöföldun hennar, bæði fyrir gesti sem fara þar um og ekki síður íbúa Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis.
Svæðin verði tengd saman með tíðum, gæðamiklum almenningssamgöngum með aðgengi fyrir alla sem nýtist íbúum, starfsfólki og flugfarþegum. Bæta þarf sérstaklega aðgengi fólks með skerta hreyfigetu.
Aðgengi að almenningssamgöngum við Keflavíkurflugvöll verði bætt, til dæmis með því að vagnar sæki og sleppi farþegum upp við flugstöðvarbyggingu, að merkingar fyrir almenningssamgöngur verði í forgrunni í flugstöðvarbyggingu, að greiðslukerfi sé samþætt við greiðslukerfi Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis, og að aðgengi fyrir alla sé tryggt.
Skipulagt verði heildstætt göngustíga- og hjólanet um svæðin, sem tengi saman helstu atvinnu, íbúða, þjónustu- og útivistarsvæði. Lokið verði við að leggja og merkja öruggar hjólaleiðir milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.
Nefndirnar telja jafnframt mikilvægt að öryggi veitukerfa, Reykjanesbrautar og annarra samgönguinnviða milli svæðanna sé tryggt með tilliti til almannavarna, veðurs og náttúruvár.