Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja aukið framlag vegna fjarnáms á Suðurnesjum
Þriðjudagur 29. maí 2012 kl. 12:05

Vilja aukið framlag vegna fjarnáms á Suðurnesjum


Fulltrúar Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum áttu fund með stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á dögunum til að að ræða þá stöðu sem upp er komin með fjarnám á Suðurnesjum.

Aðstaða er fyrir fjarnema á tveim stöðum á Suðurnesjum, þ.e. í Reykjanesbæ og Grindavík. Fjöldi nemenda á hverri önn er 80-100 manns. Meðalaldur nemenda er 36 ár og stundar stór hluti nemenda vinnu með námi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Búseta fjarnema hefur verið greind og var niðurstaðan sú að 87% útskrifaðra nemenda búa á Suðurnesjum. Frá árinu 2004 hafa 107 nemendur útskrifast frá Háskólanum á Akureyri.

Eins og staðan er núna þá vantar fjármuni til að standa undir rekstri fjarnáms á Suðurnesjum á næstu árum.

Stjórn S.S.S. samþykkir að fela formanni og framkvæmdastjóra að fara í viðræður við Mennta- og menningarmálaráðuneytið um aukið framlag til svæðisins vegna fjarnámsins í samráði við forsvaramenn MSS.

Í framhaldi af þessum fundi bókaði bæjarráð Sveitarfélagsins Voga eftirfarandi:

„Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga styður að á næstu fjárhagsáætlun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verði því fé sem veitt er í sérstök verkefni sveitarfélagna forgangsraðað þannig að Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum geti boðið upp á fjarnám í hjúkrunarfræði næsta haust. Ef fundur S.S.S. og M.S.S. með ríkinu bera árangur og frekari framlög fáist í fjarnám á Suðurnesjum á því tímabili sem hjúkrunarfræðinámið stendur yfir mun framlag sveitarfélaganna lækka sem því nemur. Svæðið þarf mjög á hjúkrunarfræðimenntuðu fólki að halda ekki síst í öldrunarþjónustu og er fjarnám í hjúkrunarfræði mikilvægt fyrir þá uppbyggingu í hjúkrunarmálum aldraðra sem nú er að fara af stað“.

Stjórn S.S.S. tekur á síðasta fundi sínum undir með Sveitarfélaginu Vogum að brýnt sér að bjóða upp á aðstöðu til fjarnáms á Suðurnesjum. Stjórnin mun aðstoða M.S.S. til að leita leiða við að finna fjármagn svo hægt sé að halda uppi þjónustu við fjarnema á Suðurnesjum Nauðsynlegt er að ríkið komi til móts við M.S.S. og sveitarfélögin á Suðurnesjum með því að styrkja fjarnám á svæðinu til jafns við aðra landshluta. Þannig væri hægt að tryggja áframhaldandi fjarnám hjá M.S.S.