Vilja auka þátttöku barna í íþróttum
- Bæjarráð Reykjanesbæjar lýsti yfir áhyggjum af hreyfingarleysi barna
Nýleg könnun á þátttöku grunnskólabarna í íþróttum í Reykjanesbæ leiddi í ljós að hún er mismunandi eftir skólum, frá 45 prósentum og upp í 78 prósent. Í fundargerð Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar frá 7. mars síðastliðnum kemur fram að ráðið hafi áhyggjur af hreyfingarleysi barna og bindi vonir við að nýtt samgöngukerfi muni stuðla að aukinni þátttöku. Hvatagreiðslur voru um síðustu áramót hækkaðar úr 15.000 krónum í 21.000 krónur og telur ráðið líklegt að hækkunin auki þátttöku barna í íþróttum.
Að sögn Hafþórs Barða Birgissonar, íþrótta- og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar, hafa kannanir sýnt að meðal barna og unglinga sem æfa oftar en fjórum sinnum í viku sé hlutfallið í Reykjanesbæ vel yfir landsmeðaltali. Aftur á móti er hlutfallið undir landsmeðaltali meðal barna sem æfa tvisvar sinnum í viku eða sjaldnar. Hann segir mikil sóknarfæri til að auka þátttöku barna og unglinga í íþróttum. „Hluti af því að er að kynna íþróttastarfið betur. Mig grunar að það átti sig ekki allir á því hversu fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf er í boði í sveitarfélaginu,“ segir hann. Hafþór telur einnig að samgöngumálin hafi áhrif á íþróttaiðkun barna og bindur vonir við að nýtt samgöngukerfi sem tekið verður í notkun í haust geri börnum léttara fyrir að sækja æfingar í Reykjanesbæ.
Sækja þarf sérstaklega um hvatagreiðslur á netinu og voru um þúsund fjölskyldur sem nýttu sér þær á síðasta ári. Hafþór hvetur fólk sem ekki hefur aðgang að tölvum eða interneti að koma við á skrifstofum Reykjanesbæjar þar sem hann getur aðstoðað við skráningu. Á Facebook-síðunni Íþróttir- Tómstundir og Forvarnir í Reykjanesbæ er reglulega sett inn efni um það sem er að gerast í íþróttum og öðru félagsstarfi í Reykjanesbæ og hvetur Hafþór áhugasama til að fylgjast með þeirri síðu.