Vilja að nýtt fangelsi rísi á Suðurnesjum
Bæjarráð Sandgerðisbæjar ræddi á fundi sínum í gær fyrirhugaða byggingu nýs fangelsis og staðsetningu þess. Í bókun bæjarráðs er ítrekuð fyrri afstaða bæjaryfirvalda um samstarf við innanríkisráðuneyti og fangelsismálayfirvöld um byggingu fangelsisins. Bæjarráð bendir á að svokallað Rockvillesvæði norðan Keflavíkurflugvallar sé góður kostur fyrir byggingu þess og að þar sé hægt að hefja framkvæmdir nú þegar. Í þessu sambandi minnir bæjarráð á loforð ríkisstjórnarinnar um átak í atvinnumálum á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sandgerðisbæ.
Atvinnuleysi er sem kunnugt er mest á landinu á Suðurnesjum og mælist nú frá 12 og 15% í Reykjanesbæ, Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ. Það er því löngu orðið tímabært að grípa til raunverulegra aðgerða til þess að snúa þessu ófremdar ástandi við. Bygging fangelsis og rekstur þess myndi skapa fjölda starfa á þessu svæði til skemmri og lengri tíma. Langtímaatvinnuleysi getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild. Til þess að sporna við þessu gætu stjórnvöld hæglega tekið þá ákvörðun að staðsetja nýtt fangelsi þar sem veruleg þörf er á atvinnu, í næst stærsta lögregluumdæmi landsins, í námunda við alþjóðaflugvöll landsins og á stað þar sem samgöngur til Reykjavíkur eru beinar og greiðar.
Fulltrúum Sandgerðisbæjar hefur verið tjáð að staðsetning fangelsisins muni ráðast af hagstæðasta tilboðinu. Í minnisblaði sem Deloitte vann fyrir Innanríkisráðuneytið kemur fram að ákveðinn núllpunktur í útreikningum stjórnvalda sé miðaður við fangelsi á Hólmsheiði. Staðsetning fangelsis utan höfuðborgarsvæðisins þurfi því að taka mið af þeim kostnaðarauka sem hljótist af aukinni vegalengd í formi aukins kostnaðar við fangaflutninga til og frá fangelsinu ásamt aksturskostnaði vegna yfirheyrslna, túlka og lögmanna. Spyrja má hvort réttmætt sé að ganga út frá núllpunkti á Hólmsheiði. Héraðsdómur Reykjaness sem er næststærsti héraðsdómstóll landsins er staðsettur í Hafnarfirði. Það mætti því færa rök fyrir því að Hólmsheiði sem stendur austan við borgina sé ekki raunhæf viðmiðun um kostnaðarauka í tilfelli Suðurnesja.
Því skal þó haldið til haga að ríkisstjórnin hefur stutt við svæðið með ýmsum aðgerðum eins og með sérstakri aðkomu Velferðarvaktarinnar, útibúi Umboðsmanns skuldara og vinnu við úttekt á menntunarmöguleikum á svæðinu og umbætur í þeim efnum. Þá hefur Iðnaðarráðuneytið lagt fé til stofnunar Atvinnuþróunarráðs Suðurnesja sem hefur það hlutverk að styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Það er raunhaæfur og hagkvæmur kostur að byggja nýtt fangelsi á Miðnesheiði og slík framkvæmd er góð innspýting fyrir það landssvæði sem hefur farið verst út úr efnahagsþrengingum síðustu missera, segir í tilkynningu Sandgerðisbæjar.